Sport

Klúður kínverskrar skautakonu þurrkað út af netinu í Kína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tárin runnu hjá Zhu Yi en hún fékk litla samúð hjá netverjum í Kína.
Tárin runnu hjá Zhu Yi en hún fékk litla samúð hjá netverjum í Kína. AP/Natacha Pisarenko

Nítján ára kínversk skautakona olli þjóð sinni miklum vonbrigðum þegar hún klúðraði sínum dans í blandaðri liðakeppni á listskautum á skautum. Á sama tíma hefur meðferðin sem hún fékk á netinu farið langt yfir strikið.

Zhu Yi hefur ekki átt góða daga á Vetrarólympíuleikunum í Kína og endaði með að skauta grátandi af svellinu eftir enn mistökin sín. Kínverska þjóðin hefur sýnt henni grimmd og miskunnaleysi á netinu.

Zhu Yi fór vissulega á taugum í dansi sínum og þegar hún datt þá endaði hún mjög klaufalega út í vegg. Frammistaða hennar var það slök að hún endaði í neðsta sæti sem átti eftir að kosta lið hennar verðlaun. Kínverska liðið fór úr þriðja sæti niður í það fimmta.

Það er alls ekki að hjálpa henni að hún er fædd og uppalin í Bandaríkjunum en skipti yfir í Kína árið 2018 þegar Kínverjar voru að safna liðið fyrir Vetrarólympíuleikana á heimavelli. Hún hét áður Beverly Zhu en breytti nafninu sínu í Zhu Yi. Það er eins og uppruni hennar hafi gefið á hana skotleyfi á samfélagsmiðlum í Kína.

„Ég býst við því að ég hafi orðið svolítið hrædd þegar ég klikkaði á fyrsta stökkinu og ég fann fyrir mikilli pressu í síðasta stökkinu,“ sagði Zhu Yi í viðtali við Fox Sports.

„Ég er leið og skammast mín svolítið. Ég fann líklega fyrir allir þessari pressu af því að það kom öllum á óvart að ég hafi verið valin í liðið. Ég vildi svo mikið sýna þeim að ég gæti þetta. Því miður tókst það ekki,“ sagði Zhu og tárin runnu hjá henni eftir keppnina. Það var aftur á móti engin miskunn hjá kínversku þjóðinni.

Klúður hennar fór eins og eldur um sinu um samfélagsmiðla í Kína þar sem fólk var að deila myndbandi af henni detta og nokkur myllumerki henni tengd fóru á mikið flug. Fljótlega höfðu yfir milljón manns horft á myndböndin.

Skyndilega hurfu hins vegar öll myndböndin af netinu. Það var ljóst að kínversk stjórnvöld gripu í taumana.

CNN, Fox Sports og ABC News sögu frá því að Kínverjar höfðu ritskoðað myndbönd með myllumerkjum tengdum nafni Zhu Yi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×