Körfubolti

„Ósáttur með dómarana undir lokin“

Andri Már Eggertsson skrifar
Helgi Magnússon var svekktur með dómarana undir lok leiks
Helgi Magnússon var svekktur með dómarana undir lok leiks Vísir/Bára Dröfn Kristinsdóttir

KR tapaði með þremur stigum gegn Val 81-78. Þetta var frestaður leikur frá því fyrir áramót og var Helgi Már Magnússon, þjálfari KR, svekktur með hvernig dómararnir leystu það þegar KR reyndi að brjóta undir lok leiks.

„Þetta var hökuleikur. Varnirnar voru þéttar og var ég ánægður með baráttuna í mínu liði en við klikkuðum aðeins í vörninni gegn Pablo Bertone sem refsaði okkur trekk í trekk,“ sagði Helgi Magnússon eftir leik.

Helgi hrósaði sínu liði og var ánægður með orkuna í liðinu.

„Ég var ánægður með orkuna í liðinu og hvernig við héldum haus allan leikinn með góðri baráttu. Mér fannst sjáanlegt orkuleysi á Adama Darbo. Þetta var fyrsti dagurinn hans eftir Kórónuveiruna og var hann langt frá því að vera ferskur í þessum leik þar sem hann spilaði mikið vegna þess hversu fáliðaðir við vorum.“

Helgi var afar svekktur með dómaratríó leiksins þar sem KR braut á Kristófer Acox undir lokin en dómararnir flautuðu ekki villu.

„Mér fannst við augljóslega brjóta á Kristófer Acox þar sem við vorum að reyna senda hann á vítalínuna en dómararnir létu leikinn klárast með því að við slógum trekk í trekk. Ég fékk þær útskýringar að ef þeir hefðu flautað villu þá ættu þeir að dæma U villu.“

„Mér finnst þetta rosalega skrítnar reglur. Þetta eru erfiðar aðstæður og þarna hélt Kristófer á boltanum þrír menn koma og hanga í honum en dómararnir eru svo meðvitaðir um hvað við erum að reyna að þeir verða smeykir við að flauta,“ sagði Helgi og bætti við að þetta var afar leiðinlegur endir.


Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×