Handbolti

Ísland átti tvö af ungstirnum EM í handbolta í ár og nú er hægt að kjósa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson fagnar hér sigri með Ými Erni Gíslasyni. Báðir eru þeir menn framtíðarinnar hjá íslenska landsliðinu.
Viktor Gísli Hallgrímsson fagnar hér sigri með Ými Erni Gíslasyni. Báðir eru þeir menn framtíðarinnar hjá íslenska landsliðinu. HSÍ - Handknattleikssamband Íslands

Framtíðin er björt hjá íslenska handboltalandsliðinu eins og kom svo vel í ljós á nýloknu Evrópumóti í handbolta. Ungu strákarnir í liðinu vöktu mikla athygli og tveir þeirra eru tilnefndir sem ungstirni EM hjá handboltavefmiðlinum handball-world.com.

Blaðamenn Handball-world.com völdu þá leikmenn, 23 ára og yngri, sem stóðu sig best á mótinu. Tveir þeirra komust í úrvalsliðið valið af almenningi en það voru íslenski markvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson og danska örvhenta skyttan Mathias Gidsel.

Þeir koma að sjálfsögðu til greina sem ungstirni EM en það gera líka átján leikmenn til viðbótar.

Viktor Gísli átti frábæra innkomu í íslenska liðið eftir að Björgvin Páll Gústavsson var settur í einangrun og lék aldrei betur en í stórsigrinum á Frökkum.

Leikstjórnandinn Gísli Þorgeir Kristjánsson komst líka í þennan hóp þrátt fyrir að spila bara fyrstu þrjá leiki íslenska liðsins á mótinu áður en hann endaði í einangrun. Gísli var með 4 mörk að meðaltali og 75 prósent skotnýtingu í riðlakeppninni og sýndi þá hversu langt hann er kominn í sínum leik.

Þrjár þjóðir eiga tvo leikmenn á þessum tuttugu manna lista en það eru auk Íslands, Evrópumeistarar Svíþjóðar og Pólland.

Á listanum eru leikmenn 23 ára og yngri en Viktor Gísli er bara 21 árs gamall og Gísli Þorgeir er 22 ára. Það er hægt að kjósa þann besta með því að fara hér inn. Íslensku strákarnir eiga nú skilið atkvæði eftir frábæra frammistöðu sína á EM:

  • Þessir eru tilnefndir:
  • Alexandre Blonz, Noregi
  • Milan Bomastar, Serbíu
  • Radojica Cepic, Svartfjallalandi
  • Valter Chrintz, Svíþjóð
  • Mathias Gidsel, Danmörku
  • Viktor Gísli Hallgrímsson, Íslandi
  • Piotr Jedraszczyk, Póllandi
  • Matej Klima, Tékklandi
  • Sergei Mark Kosorotov, Rússlandi
  • Julian Köster, Þýskalandi
  • Gisli Þorgeir Kristjánsson, Íslandi
  • Tin Lucin, Króatíu
  • Domen Makuc, Slóveníu
  • Dominik Mathe, Ungverjalandi
  • Dylan Nahi, Frakklandi
  • Michal Olejniczak, Póllandi
  • Martin Potisk, Slóvakíu
  • Salvador Salvador, Portúgal
  • Ian Tarrafeta, Spáni
  • Karl Wallinius, Svíþjóð



Fleiri fréttir

Sjá meira


×