Körfubolti

Hilmar Smári: Við vitum hverjir við erum og hvar við viljum vera

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hilmar Smári Henningsson átti frábæran leik í kvöld.
Hilmar Smári Henningsson átti frábæran leik í kvöld. Vísir/Bára

Hilmar Smári Henningsson var að öðrum ólöstuðum besti maður vallarins þegar Stjarnan lagði Þór frá Akureyri, næsta auðveldlega, 112-84 í 15. umferð Subway deildar karla í körfuknattleik. Stjörnumenn voru í raun og veru búnir að tryggja sigur sinn í hálfleik en góð vörn skóp sigurinn að mati Hilmars.

„Við komum dálítið flatir varnarlega inn í leikinn en þegar við tókum okkur saman í vörninni í öðrum leikhluta þá small þetta. Við vorum auðvitað að hitta vel líka en fyrst og fremst þá náum við að halda þeim í lágri skotprósentu með því að þvinga þá í erfið skot þannig að það var það sem bjó til muninn og svo héldum við út leikinn.“

„Skiljanlega þá slakar maður aðeins á þegar munurinn er 30 stig og einn fjórðungur eftir. Við vitum það en á sama tíma er það mjög hættulegt. Ef maður er mjög flatur þá getur það gefið þeim von þannig að maður verður að stjórna öllum aðstæðum sem maður er í. Sem betur fer lentum við ekki í neinum vandræðum í seinni hálfleik og náðum að vinna leikinn.“

Hilmar fann sig vel en fyrstu sex þriggja stiga skotin hans rötuðu rétta leið í kvöld og lauk kappinn leik með 26 stig og átta stoðsendingar. Það reiknast sem 32 framlagspunktar.

„Ég hef alltaf góða tilfinningu fyrir skotinu mínu en stundum dettur það og stundum ekki. Í dag duttu skotin niður.“

Að lokum var Hilmar spurður út í það hvað þessi leikur segði Stjörnumönnum um þá sjálfa og stöðu liðsins í deildinni.

„Sigur er sigur. Það var mjög mikilvægt að vinna þennan leik en hann segir okkur svo sem ekki mikið um okkur sjálfa, við vitum hverjir við erum og hvar við viljum vera. Við erum bara einu skrefi nær því þar sem við viljum vera. Þannig sjáum við þetta fyrir okkur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×