Sport

Vonast til að Ísland eigi keppendur á snjóbrettum á ÓL í febrúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Freydis Halla Einarsdóttir á ferðinni á síðustu Vetrarólympíuleikum.
Freydis Halla Einarsdóttir á ferðinni á síðustu Vetrarólympíuleikum. EPA-EFE/VASSIL DONEV

Það styttist óðum í Vetrarólympíuleikanaa í Peking í Kína sem fara fram 4. til 20. febrúar. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í samvinnu við Skíðasamband Íslands hefur sett saman Ólympíuhóp íslenskra keppenda vegna leikanna.

Í þessum Ólympíuhóp eru það íþróttafólk sem stefnir að þátttöku á leikunum. Þau eru að vinna markvisst að því að tryggja sér keppnisrétt á leikana.

Þetta lemur fram í frétt á heimasíðu Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og þar kemur einnig fram hvað sé að skila þeim í þennan hóp. Þetta íþróttafólk stendur fremst í sínum greinum og eru þau sem Skíðasamband Íslands telur að eigi möguleika á þátttöku á leiknum meðal annars með því að vinna sér þátttökurétt í gegnum úrtökumót.

Íslenski hópurinn sem keppir á leikunum í febrúar verður svo tilkynntur formlega þegar nær dregur leikum. Á síðustu leikum átti Ísland einn keppanda af hvoru kyni í alpagreinum og í skíðagöngu voru tveir karlar og ein kona. Miðað við núverandi stöðu á heimslistum má búast við því að fjöldi keppenda með keppnisrétt verði svipaður, auk þess sem vonir eru bundnar við keppendur í snjóbrettum.

Kvótar eru á keppnisréttum og eru þeir misjafnir eftir greinum. Erfiðara er að vinna sér inn keppnisrétt nú en áður vegna breytinga á lágmörkum. Einnig hefur verið erfiðara að ferðast og sækja mót erlendis sökum heimsfaraldurs.

Líkt og Sumarólympíuleikarnir í Tókýó, verða þessir Vetrarólympíuleikar í Peking um margt sérstakir vegna kórónuveirufaraldursins. Aðgangur erlendra gesta verður mjög takmarkaður og umtalsverðar takmarkanir verða vegna sóttvarna.

Þau sem skipa Ólympíuhóp ÍSÍ á þessari stundu eru:

  • Alpagreinar
  • Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir
  • Katla Björg Dagbjartsdóttir
  • María Finnbogadóttir
  • Sturla Snær Snorrason
  • Skíðaganga
  • Albert Jónsson
  • Dagur Benediktsson
  • Isak Stiansson Pedersen
  • Kristrún Guðnadóttir
  • Snorri Einarsson
  • Snjóbretti
  • Baldur Vilhelmsson
  • Benedikt Friðbjörnsson
  • Marinó Kristjánsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×