Sport

Naomi Osaka brotnaði niður og grét á blaðamannafundi í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Naomi Osaka er ein allra besta tenniskona heims en hún hefur unnið fjögur risamót á ferlinum og er í öðru sæti á heimslistanum.
Naomi Osaka er ein allra besta tenniskona heims en hún hefur unnið fjögur risamót á ferlinum og er í öðru sæti á heimslistanum. AP/Patrick Semansky

Tenniskonan Naomi Osaka mætti í nótt á sinn fyrsta blaðamannafund síðan hún neitaði að sinna fjölmiðlaskyldum sínum á opna franska meistaramótinu.

Þessi blaðamannafundur reyndi mikið á japönsku tenniskonuna en mikil áhugi var á honum enda hún að tala við blaðamenn í fyrsta skiptið í marga mánuði.

Í maí sagði Osaka frá því að hversu erfitt andlega það væri fyrir sig að mæta á blaðamannafundi og að hún myndi ekki mæta á blaðamannafundi eftir leiki sína á mótinu í París. Eftir að forráðamenn opna franska meistaramótsins sektuðu hana fyrir að mæta ekki og ætluðu að fara í hart þá hætti Osaka keppni og afboðaði sig líka á Wimbledon mótið.

Naomi Osaka er ein allra besta tenniskona heims en hún hefur unnið fjögur risamót á ferlinum og er nú í öðru sæti á heimslistanum. Hún var um tíma í fyrsta sætinu.

Í nótt hélt Osaka þennan blaðamannafund í gegnum netið fyrir Cincinnati meistaramótið og hún fékk þá spurninguna um hvernig það væri að eiga við blaðamenn undir þeim aðstæðum.

Osaka brotnaði þá niður og grét og hlé varð gert á fundinum. Osaka hélt síðan áfram þegar hún var búin að jafna sig.

Fyrr í viðtalinu þá sagði Osaka vera stolt af því sem hún gerði í París. „Það var eitthvað sem varð að gerast,“ sagði Naomi Osaka.

Osaka talaði um það í maí að hún hafi gert þetta til að verja andlega heilsu sína.

„Mér fannst þetta vera eitthvað sem ég varð að gera fyrir mig sjálfa. Ég lokaði mig í framhaldinu inn á heimili mínu í nokkrar vikur og skammaðist mín eiginlega fyrir að fara út,“ sagði Naomi.

„Það sem opnaði augun mín var þegar ég fór á Ólympíuleikana og aðrir íþróttamenn komu til mín og hrósuðu mér fyrir að gera það sem ég gerði,“ sagði Naomi.

Osaka studdi líka við bakið á Simone Biles sem hætti keppni í nokkrum greinum á Ólympíuleikunum vegna andlegs álags.

„Ég sendi henni skilaboð en ég vildi líka gefa henni rými því ég veit hversu yfirþyrmandi hlutirnir geta verið,“ sagði Naomi Osaka.

Osaka er þarna að fara að keppa á Cincinnati meistaramótinu og Naomi hafði áður tilkynnt að hún ætli að gefa allt verðlaunafé sitt á því móti til hjálparstarfsins í kjölfar jarðskjálftans á Haíti en faðir hennar er einmitt frá Haíti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×