Fótbolti

Þeir hvítu búnir að vinna alla leikina sína í útsláttarkeppni EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane fagnar marki á móti Úkraínu en enska liðið mun spila í hvíta búningi sínum út keppnina sem boðar mjög gott.
Harry Kane fagnar marki á móti Úkraínu en enska liðið mun spila í hvíta búningi sínum út keppnina sem boðar mjög gott. AP/Lars Baron

Það hefur boðað mjög gott að klæðast hvítu í útsláttarkeppni Evrópumótsins í knattspyrnu. Undanúrslitin fara fram í kvöld og annað kvöld og ef marka má úrslitin til þessa þá þýðir þetta bara eitt.

Jú þetta eru frábærar fréttir fyrir England og Spán. Þau spila bæði í hvítum búningum í undanúrslitaleikjunum og ættu því að vera með tryggt sæti í úrslitaleiknum.

Öll níu liðin sem hafa spilað í hvítum búningum í sextán liða eða átta liða úrslitunum á þessu Evrópumóti fögnuðu nefnilega sigri.

Það voru reyndar þrír leikir þar sem hvorugt liðið spilaði í hvítu en þeir voru allir í sextán liða úrslitunum.

Í átta liða úrslitunum klæddust Spánn, Ítalía, England og Danmörk í hvítu og fögnuðu öll sigri.

Þetta getur varla talist vera tilviljun lengur.

Spánverjar verða í hvítu á móti Ítölum í kvöld og Englendingar verða hvítir á móti Dönum á morgun.

Sigurvegarinn úr undanúrslitaleik Englands og Danmerkur verður síðan í hvítu í úrslitaleiknum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×