Fótbolti

Áfram í starfi þrátt fyrir vonbrigðin

Valur Páll Eiríksson skrifar
Roberto Martínez verður áfram með belgíska landsliðið.
Roberto Martínez verður áfram með belgíska landsliðið. VÍSIR/GETTY

Roberto Martínez, þjálfari belgíska karlalandsliðsins í fótbolta, mun halda starfinu þrátt fyrir vonbrigðin á yfirstandandi Evrópumóti þar sem Belgía féll úr keppni fyrir Ítalíu í 8-liða úrslitum um helgina.

Belgíska knattspyrnusambandið tilkynnti um þetta í morgun. Peter Bossaert, framkvæmdastjóri sambandsins, sagði að undirbúningur væri þegar hafinn fyrir komandi leiki í undankeppni HM, þar sem Martínez verði við stjórnvölin.

Í hefjum við undirbúning fyrir leikina í september og október. Roberto Martínez verður þar. Ekki er von á opinberri tilkynningu enda engin ástæða til breytinga á starfsliðinu, var haft eftir Bossaert.

Martínez hefur stýrt Belgum frá haustinu 2016, þegar hann tók við af fyrrum belgíska landsliðsmanninum Marc Wilmots. Liðið náði sínum besta árangri í sögunni á HM í Rússlandi 2018 þar sem það hlaut brons, og var stefnan sett á Evróputitil í sumar.

Það gekk hins vegar ekki eftir og voru spurningamerki sett við spænska þjálfarann þar sem tíminn er að renna út með svokallaðri gullkynslóð landsins; með Eden Hazard, Romelu Lukaku, Kevin De Bruyne og fleiri.

Belgía er á toppi heimslistans og hefur verið síðan í september 2018. Liðið er með sjö stig eftir þrjá leiki og toppar riðil sinn í undankeppninni fyrir HM þar sem Tékkar, Walesverjar, Hvít-Rússar og Eistar eru einnig.

Núverandi samningur Martínez rennur út eftir HM 2022 sem fer fram í Katar í desember á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×