Sport

Banna sundhettur fyrir hár svartra á Ólympíuleikunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alice Dearing má ekki nota sundhettu á Ólympíuleikunum í Tókýó sem er sérhönnuð fyrir svart sundfólk.
Alice Dearing má ekki nota sundhettu á Ólympíuleikunum í Tókýó sem er sérhönnuð fyrir svart sundfólk. Getty/Clive Rose/

Það er ekki sama hvaða sundhettu þú mætir með á Ólympíuleikana í Tókýó. Alþjóðasundsambandið hefur bannað ákveðna gerð sundhetta sem var ætlað til að hjálpa sundfólki með þykkt og mikið hár.

Rök Alþjóðasambandsins fyrir banni sínu eru meðal annars að þessar sérhönnuðu sundhettur fylgi ekki eðlilegu formi höfuðsins. Aðrir sjá þetta ekki sem neitt annað en kynþáttafordóma.

Sundhetturnar eru hannaðar af Soul Cap sem er fyrirtæki í eigu blökkumanna og hannaðar með svart fólk í huga. Þær voru hannaðar til að ráða betur við hár svarta sem er oft þykkara og umfangsmeira en hjá öðru sundfólki.

Sundhetturnar eru mun stærri til að geta rúmað þykkari og meira hár.Getty/Kristin Palitza

Sundkonan Alice Dearing, sem verður fyrsta svarta sundkonan til að keppa fyrir Breta á Ólympíuleikum, var áður í samvinnu við Soul Cap fyrirtækið í hönnuninni á sundhettunni.

Svart sundfólk hefur hingað til verið í miklum minnihluti á stórmótum og reglugerðir sem þessi hjálpa ekki til að breyta því.

FINA sagði ekki aðeins að umræddar sundhettur fylgi ekki náttúrulegu formi höfuðsins heldur einnig að eftir þeirra bestu vitneskju þá þurfi sundfólk á alþjóðlegum mótum ekki að nota sundhettur af þessari stærð og gerð. Þau hafi ekki gert það hingað til.

Þessi ákvörðun hefur strax skiljanlega kallað á hörð viðbrögð frá samtökum blökkumanna sem þykir enn eitt dæmið um misrétti í garð þeirra. Danielle Obe, stofnandi sundsambands svartra, segir þetta mál vera dæmi um misrétti í íþróttinni.

„Við teljum að þetta sýni og sanni skort á fjölbreytni í sportinu. Sundsambandið þarf að geta betur,“ sagði Danielle Obe. Obe segir að hinar venjulegu sundhettur séu hannaðar fyrir hár hvítra en þær henti ekki afróhári sem vex upp og ögrar oft þyngdaraflinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×