Fótbolti

Telur lík­legt að Saka byrji og Sout­hgate stilli upp í 3-4-3 leik­kerfi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Southgate er mikill aðdáandi Saka.
Southgate er mikill aðdáandi Saka. Marc Atkins/Getty Images

Hinn áreiðanlegi David Ornstein hjá The Athletic hefur stillt upp því sem hann telur líklegt byrjunarlið Englands í leiknum gegn Þýskalandi í 16-liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu í dag.

Ornstein telur að Gareth Southgate gæti stillt upp í 3-4-3 leikkerfi, mögulega til að spegla uppstillingu Þýskalands, en Southgate stillti enska liðinu oftar en ekki upp í mjög varnarsinnað 3-4-3 kerfi í Þjóðadeildinni.

Þá telur Ornstein að Bukayo Saka verði í byrjunarliðinu eftir frábæra frammistöðu gegn Tékklandi í lokaleik riðlakeppninnar. Að sama skapi gætu Mason Mount, Jack Grealish og Phil Foden allir byrjað leikinn á bekknum.

Það eru aðrar upplýsingar en enskir fjölmiðlar höfðu í gær en talið var að Mason Mount gæti komið beint úr sóttkví og í byrjunarliðið.

Hinn 19 ára gamli Saka var valinn maður leiksins í 1-0 sigri Englands á Tékklandi og gæti haldið stöðu sinni er England tekur á móti Þýskalandi á Wembley í Lundúnum í dag.

Saka yrði þá eflaust vinstra megin í þriggja manna framlínu með Harry Kane einan upp á topp og Raheem Sterling úti hægra megin. Kalvin Phillips og Declan Rice hafa verið saman á miðjunni til þessa og er ólíklegt að Southgate skipti þeim út að svo stöddu.

Ef stillt yrði upp í 3-4-3 er stærsta spurningin hvaða leikmenn yrðu í vængbakvörðum sem og þriggja manna varnarlínu.

Það kemur allt í ljós í dag er liðin mætast klukkan 16.00 á Wembley í Lundúnum. Leikurinn er í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport en upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 15.20.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×