Fótbolti

„Eftir rauða spjaldið áttum við erfitt með að setja pressu á þá“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Georginio Wijnaldum var niðurlútur eftir að Hollendingar féllu úr leik.
Georginio Wijnaldum var niðurlútur eftir að Hollendingar féllu úr leik. Eric Verhoeven/Soccrates/Getty Images

Hollendingar féllu úr leik á EM eftir 2-0 tap gegn Tékkum í dag. Georginio Wijnaldum, fyrirliði liðsins, segir að rauða spjaldið sem Matthijs de Ligt fékk á 52. mínútu hafi sett stórt strik í reikninginn.

„Þessi mörk sem við gáfum og færin sem við nýttum ekki. Það er það sem fer í gegnum huga manns eftir svona leik,“ sagði Wijnaldum að leikslokum.

„Eftir rauða spjaldið áttum við erfitt með að setja pressu á þá. Hlutirnir urðu bara svo miklu erfiðari fyrir okkur.“

Nigel de Jong, fyrrum miðjumaður hollenska landsliðsins, sagði í samtali við ITV að Hollendingar hafi ekki haft trú á verkefninu.

„Það var engin trú eftir fyrri hálfleikinn.“ sagði de Jong. „Trúin var farin. Þeir höfðu enga trú á sóknarleiknum og að vinna leikinn. Það vantaði trú, ákefð, karakter og alvöru leiðtoga.“

De Jong hélt áfram og eins og Wijnaldum sagði hann að rauða spjaldið hafi sett strik í reikninginn.

„Þetta var slæm framistaða hjá Hollendingum. Það vantaði ákefðina og betra hugarfar. Stundum þegar það er rautt spjald þjappast liðið betur saman, en Hollendingarnir gerðu það ekki í dag.“

Þetta var fyrsta tap Hollendinga í venjulegum leiktíma á stórmóti síðan í lokaleik riðilsins á EM 2012. Þeir féllu úr leik í undanúrslitum á HM 2014 eftir vítaspyrnukeppni gegn Argentínu og komust hvorki á EM 2016, né HM 2018.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×