Fótbolti

Tapað fimm leikjum á fimm árum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Danir fögnuðu vel og innilega í gær. 
Danir fögnuðu vel og innilega í gær.  Marcio Machado/Eurasia Sport Images/Getty Images

Danska landsliðið varð í gær fyrsta liðið til þess að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu 2020.

Danir rúlluðu yfir Wales 4-0 og var sigurinn í raun aldrei í hættu. Ítalir fylgdu á eftir Dönum í gær en næstu tveir leikirnir í sextán liða úrslitunum fara fram í dag.

Það hefur verið góðæristíð hjá Dönum að undanförnu í fótboltanum og það sést á úrslitum danska landsliðsins undanfarin fimm ár.

Danir hafa nefnilega bara tapað fimm leikjum síðustu fimm ár og hafa þeir á þessum fimm árum spilað 52 leiki.

Þrír þeirra voru á móti Belgum og einn gegn Finnum eftir að Christian Eriksen hneig niður í fyrri hálfleik.

Fimmta tapið var svo 3-0 tap gegn Slóvakíu þar sem enginn af þeim sem spila venjulega fyrir landsliðið gáfu kost á sér.

Danir eru eins og áður segir komnir í átta liða úrslitin þar sem þeir mæta annað hvort Hollandi eða Tékklandi í Baku.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×