Fótbolti

Gary Neville: Guardiola gæti vel verið sá besti í sögunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola hefur unnið  níu titla með Manchester City frá því að hann kom til félagsins árið 2016.
Pep Guardiola hefur unnið  níu titla með Manchester City frá því að hann kom til félagsins árið 2016. EPA-EFE/ANDY RAIN

Knattspyrnusérfræðingurinn og Manchester United goðsögnin Gary Neville talar afar vel um Pep Guardiola og Manchester City í nýjasta hlaðvarpsþætti sínum.

Manchester City vann enn einn titilinn undir stjórn Pep Guardiola um helgina þegar City vann enska deildabikarinn fjórða árið í röð eftir 1-0 sigur á Tottenham í úrslitaleik.

„Pep Guardiola er með magnaðan árangur í bikarkeppnum. Lið hans hafa unnið fjórtán af fimmtán úrslitaleikjum sem er algjörlega út úr þessum heimi. Þeir eru að ná þessu með því að spila magnaðan fótbolta,“ sagði Gary Neville sem nú starfar hjá Sky Sports en reyndi á sínum tíma fyrir sér sem knattspyrnustjóri Valencia.

Gary Neville spilaði allan sinn feril undir stjórn Sir Alex Ferguson sem margir telja vera besta knattspyrnustjóra allra tíma. Orð Neville um Pep Guardiola í þættinum vöktu því nokkra athygli.

„Ég held að Manchester City gæti verið með besta knattspyrnustjóra allra tíma þegar við munum horfa aftur eftir tíu, fimmtán eða tuttugu ár. Hvernig hann hefur farið til annarra landa og búið til yfirburðarlið en um leið haft mikil áhrif á aðra. Ég held að við höfum aldrei séð svona áður,“ sagði Neville.

Manchester City mætir Paris Saint Germain í fyrri undanúrslitaleik Meistaradeildarinnar en það er einmitt eini titilinn sem Guardiola á eftir að vinna sem knattspyrnustjóri Manchester City.

„Sá stóri er Meistaradeildarbikarinn og þetta verða tvær stórar vikur með þessum leikjum á móti PSG. Ef þeir ná að vinna það einvígi þá eiga þeir frábæra möguleika á því að vinna loksins Meistaradeildina,“ sagði Neville.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×