Fótbolti

Flautaði of snemma af og liðin þurftu að fara aftur út á völl til að klára leikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ricardo de Burgos var ekki alveg með tímann á hreinu í leik Sevilla og Granada í gær.
Ricardo de Burgos var ekki alveg með tímann á hreinu í leik Sevilla og Granada í gær. getty/Fran Santiago

Dómarinn Ricardo de Burgos flautaði leik Sevilla og Granada í spænsku úrvalsdeildinni í gær of snemma af. Kalla þurfti liðin aftur út á völl til að klára leikinn.

Fjórum mínútum var bætt við venjulegan leiktíma en De Burgos fannst nóg komið á 93. mínútu og flautaði þá af.

Leikmenn voru komnir inn í búningsklefa og sumir byrjaðir að afklæðast þegar þeir voru kallaðir aftur út á völlinn til að hægt væri að klára mínútuna sem eftir var af leiknum.

„Ég hef aldrei upplifað annað eins. Við vorum byrjaðir að klæða okkur úr,“ sagði Lucas Ocompos sem skoraði annað mark Sevilla.

Staðan var 2-1 fyrir Sevilla þegar De Burgos flautaði af á 93. mínútu. Granada tókst ekki að jafna á mínútunni sem eftir var og Sevilla fagnaði sigri.

„Dómarar gera mistök eins og við öll og hann reyndi að leiðrétta þau. En þetta kom sér illa fyrir okkur því við vorum að reyna að jafna og leikurinn var ekki eins eftir að hann byrjaði aftur,“ sagði Diego Martínez, knattspyrnustjóri Granada.

Sevilla er í 4. sæti deildarinnar með sjötíu stig, aðeins þremur stigum á eftir toppliði Atlético Madrid. Granada er í 8. sætinu.


Spænski boltinn, La Liga, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. La Liga er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×