Fótbolti

Var með fleiri heppnaðar sendingar en allt íslenska liðið til samans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joshua Kimmich sendir eina af mörgum sendingum sínum í fyrri hálfleik í sigrinum á íslenska landsliðinu.
Joshua Kimmich sendir eina af mörgum sendingum sínum í fyrri hálfleik í sigrinum á íslenska landsliðinu. AP/Michael Sohn

Bæjarinn Joshua Kimmich átti góðan leik inn á miðju þýska landsliðsins á móti íslensku strákunum í gær og það er óhætt að segja að kappinn hafi verið mikið í boltanum í leiknum.

Þýskaland vann leikinn 3-0 sem var sá fyrst í undankeppni HM 2022. Yfirburður þýska liðsins voru gríðarlegir í fyrri hálfleiknum og þar var Joshua Kimmich allt í öllu.

Joshua Kimmich, sem er kannski þekktari fyrir að spila sem hægri bakvörður í landsliðinu, er mjög fjölhæfur leikmaður og sýndi í gær hversu öflugur hann er inn á miðjunni.

Þegar menn fóru að rýna í tölfræði leiksins þá sáu menn mjög sérstaka tölfræði hjá Joshua Kimmich í samanburði við tölfræði íslenska liðsins.

Þýska landsliðið var með 1053 heppnaðar sendingar í öllum leiknum þar af voru 176 þeirra frá Joshua Kimmich.

Það var aftur á móti tölfræðin í fyrri hálfleiknum sem var sláandi. Kimmich var þá með 91 heppnaða sendingu eða einni meira en allt íslenska liðið til samans.

Ein af þessum sendingum var sú sem sprengdi upp íslensku vörnina í öðru marki Þjóðverja sem Kai Havertz skoraði á sjöundu mínútu leiksins.

Joshua Kimmich er enn bara 26 ára gamall og hefur nú fært sig inn á miðjuna úr hægri bakvarðarstöðunni þar sem hann spilaði fyrri hluta ferilsins.

Kimmich hefur leikið með Bayern frá árinu 2015 og hann var að spila sinn 51. landsleik í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×