Fótbolti

„Getur vel verið að Birkir Már hefði byrjað leikinn ef hann hefði ekki verið í banni“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Birkir Már Sævarsson tók út leikbann í leiknum gegn Þýskalandi í kvöld.
Birkir Már Sævarsson tók út leikbann í leiknum gegn Þýskalandi í kvöld. vísir/vilhelm

Arnar Þór Viðarsson sagði að það hefði ekki legið fyrir fyrr en í gær hvort Birkir Már Sævarsson gæti spilað leikinn gegn Þýskalandi í undankeppni HM í kvöld.

Birkir Már fékk rautt spjald gegn Englandi í lokaleik Íslands í Þjóðadeildinni í fyrra. Aðstandendur íslenska liðsins voru ekki klárir á hvort hann tæki bannið með sér inn í undankeppni HM og fengu ekki svar um það fyrr en í gær.

„Við vissum að hann fékk rautt gegn Englandi en vorum ekki alveg öruggir hvort hann tæki rauða spjaldið með sér. Við biðum eftir svari og það kom í gær,“ sagði Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari á blaðamannafundi eftir 3-0 tapið fyrir Þýskalandi í kvöld.

Aðspurður hvort Birkir Már hefði átt að byrja leikinn í kvöld sagði Arnar að það hefði sannarlega verið inni í myndinni.

„Þetta eru þrír erfiðir leikir og við þurfum að stýra álaginu. Það er erfitt fyrir Birki Má að spila þrjá leiki á skömmum tíma. Það getur vel verið að hann hefði byrjað leikinn ef hann hefði ekki verið í banni en það hefur ekkert upp á sig að velta sér upp úr því núna. Hann var í banni,“ sagði Arnar sem hrósaði Alfonsi Sampsted sem lék sem hægri bakvörður í kvöld.

„Mer fannst Alfons standa sig vel. Hann óx vel í leiknum. Í seinni hálfleiknum varðist hann vel, fann sig betur og þorði að sækja fram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×