Fótbolti

Vissu ekki fyrr en í gær að Birkir yrði í banni í kvöld

Sindri Sverrisson skrifar
Birkir Már Sævarsson fékk að líta rauða spjaldið á Wembley í nóvember og það dró dilk á eftir sér.
Birkir Már Sævarsson fékk að líta rauða spjaldið á Wembley í nóvember og það dró dilk á eftir sér. Getty

Ísland mun ekki geta nýtt krafta Birkis Más Sævarssonar gegn Þýskalandi í kvöld vegna rauða spjaldsins sem hann fékk í síðasta mótsleik, gegn Englandi í Þjóðadeildinni í nóvember.

Þetta lá ekki endanlega ljóst fyrir fyrr en í gær. UEFA sendir liðum upplýsingar um leikbönn fyrir hvern leik á vegum sambandins, og þar var þess getið að Birkir væri í banni í kvöld.

Sigurður Sveinn Þórðarson, starfsmaður KSÍ, er með íslenska liðinu í Duisburg og sagði við Vísi að óvissa hefði ríkt um hvort Birkir yrði í banni í kvöld. Það hefði ekki fengist endanlega staðfest fyrr en með bréfinu frá UEFA í gær.

Vefmiðillinn 433.is fullyrðir að Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari hafi ætlað sér að tefla Birki fram í byrjunarliðinu í kvöld, og að æfingar í vikunni hafi miðað að því.

Í fjarveru Birkis aukast líkurnar á að Alfons Sampsted komi inn í stöðu hægri bakvarðar, eftir að hafa gegnt því hlutverki í U21-landsliðinu undir stjórn Arnars. Guðlaugur Victor Pálsson og Hjörtur Hermannsson eru meðal annarra sem gætu leyst hlutverkið í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×