Innlent

Kærur hafa verið sendar út vegna náttúru­spjalla við gos­stöðvarnar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Miklir slóðar hafa myndast á svæðinu í kring um Geldingadal.
Miklir slóðar hafa myndast á svæðinu í kring um Geldingadal. Umhverfisstofnun

Umhverfisstofnun hefur sent út kærur vegna umhverfisspjalla í kring um gosstöðvarnar í Geldingadal. Starfsmenn Umhverfisstofnunar hafa orðið vitni að ítrekuðum akstri utan vega ásamt því að almenningur hefur sent inn ábendingar. Tvær kærur hafa þegar verið sendar til lögreglu.

Þetta kemur fram á vef Umhverfisstofnunar. Þar kemur fram að mest virðist hafa verið ekið í gegn um Meradali og inn í botn Nátthaga. Þar liggi slóðar og för eftir ökutæki sem nái langt út frá þeim vegum sem skráðir séu á svæðinu.

Þá hefur verið ítrekað ekið út af slóðunum og nýjar leiðir farnar – upp fjallshlíðar, dalbotna og hryggi, sem myndað hefur nýja slóða sem aðrir elta. Segir að dæmi séu um að torfærutækjum hafi verið ekið frá Húsafjalli til norðausturs að Fagradalsfjalli um fjögurra kílómetra leið yfir ósnortið hraun.

Eldgos í Geldingadal á ReykjanesiVísir/Vilhelm

„Í gær fóru starfsmenn stofnunarinnar í Nátthaga og Meradali til að skoða vegsummerki. Stór svæði liggja þar undir skemmdum, þar sem hópum af torfærutækjum og jeppum hefur verið ekið upp brekkur og upp á fjallshryggi,“ segir á vef Umhverfisstofnunar.

Umferðin getur hindrað störf Almannavarna og Björgunarsveita

Umhverfisstofnun hefur verið í samskiptum við lögreglu og landeigendur vegna málanna. Tvö þeirra hafi þegar endað með kæru til lögreglu og muni stofnunin vísa fleiri málum til lögreglu í dag.

„Umferð ökutækja á þessum svæðum getur einnig hindrað störf Almannavarna og Björgunarsveita og er akstur á slóðum sem liggja út frá Suðurstrandavegi óheimill fyrir aðra en viðbragðsaðila og vísindafólk.“

„Fulltrúi landeigenda vill koma þeim skilaboðum á framfæri að þeir sem hyggjast skoða gosstöðvarnar sýni stillingu og virði landið, sérstaklega í ljósi þess að aðsóknin er jafn mikil og hún er. Verið er að skoða möguleika á að bæta aðgengi enn frekar að svæðinu með skynsamlegum leiðum.“


Tengdar fréttir

Eldur og ís mættust á gosstöðvunum

Náttúruöflin voru með veislu á Reykjanesskaganum í gær. Göngufólk fékk yfir sig töluverða snjóhríð á leið sinni að gosstöðvunum.

Gosið aldrei sést jafnvel frá Hafnarfirði

Eldgosið í Geldingadal sést óvenjuvel frá höfuðborginni í kvöld. Náttúruvársérfræðingur segir engin merki um að gosið hafi aukist. Skyggni og veðurskilyrði í kvöld séu einfaldlega betri en síðustu daga en þó geti verið að minni gígarnir tveir hafi sameinast í einn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×