Reynslu­boltinn af­greiddi Holland

Anton Ingi Leifsson skrifar
Yilmaz fagnar aukaspyrnumarki sínu í kvöld en hann var lykillinn í sigri Tyrklands.
Yilmaz fagnar aukaspyrnumarki sínu í kvöld en hann var lykillinn í sigri Tyrklands. Onur Coban/Getty

Tyrkland vann 4-2 sigur á Hollandi í fyrsta leik liðanna í undankeppni HM í Katar 2022. Burak Yilmaz gerði þrjú mörk fyrir heimamenn.

Hinn 36 ára gamli Burak Yilmaz skoraði fyrsta mark leiksins á fimmtándu mínút uer hann skoraði með táarsparki sem átti viðkomu í varnarmanni Hollands og þaðan í netið.

Tyrkir fengu svo vítaspyrnu á 36. mínútu. Owen Wijndal reyndist brotlegur og á punktinn steig áður nefndur Yilmaz. Hann skoraði örugglega framhjá Tim Krul í marki Hollands.

Hollendingar héldu að þeir hefðu minnkað muninn undir lok fyrri hálfleiks er skalli Matthijs de Ligt dansaði á línunni. Inn fór boltinn þó ekki og 2-0 í hálfleik.

Það voru þrjátíu sekúndur liðnar af síðari hálfleik er Hakan Calhanoglu skoraði með frábæru skoti og Frank de Boer og lærisveinar frá Hollandi komnir með bakið upp við vegg.

Davy Klaassen minnkaði muninn stundarfjórðungi fyrir leikslok eftir frábæra hreyfingu og staðan varð 3-2 tveimur mínútum síðar er annar varamaður, Luuk de Jong, skoraði.

Burak Yilmaz fullkomnaði þrennuna níu mínútum fyrir leikslok með frábæru aukaspyrnumarki en ekki var allri dramatíkinn lokið.

Hollendingar fengu vítaspyrnu á 94. mínútu. Memphis Depay tók vítaspyrnuna en Ugurcan Cakir varði frá honum.

Í riðlinum eru einnig Gíbraltar, Lettar, Svartfjallaland og Noregur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira