At­­letico náði ekki að endur­­­taka leikinn frá því í fyrra og Chelsea í átta liða úr­­slitin

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hakim fagnar markinu sem skildi liðin að í kvöld.
Hakim fagnar markinu sem skildi liðin að í kvöld. Chris Lee/Getty

Chelsea vann 2-0 sigur á Atletico Madrid í síðari leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Samanlagt vann Chelsea því einvígið 3-0.

Atletico Madrid sló Liverpool út úr sextán liða úrslitunum í fyrra, fyrir um ári síðan, en þeir náðu ekki að endurtaka leikinn í kvöld.

Enska liðið vann góðan 1-0 sigur á Wanda Metropolitano leikvanginum í fyrri leiknum með marki Oliver Giroud og voru þar af leiðandi með pálmann í höndunum í kvöld.

Þeir réðu ferðinni í kvöld. Það voru þó ekki mörg opin marktækifæri en um miðjan hálfleikinn vildu gestirnir, eðlilega, fá vítaspyrnu.

César Azpilicueta átti slaka sendingu til baka og virtist toga Yannick Carrasco niður í kjölfarið. Hvorki dómaranum né VARdómaranum fannst eitthvað athugavert við þetta og áfram héldu leikar.

Chelesa komst svo yfir á 34. mínútu eftir frábæra skyndisókn. Kai Havertz kom boltanum á Timo Werner sem átti góða fyrirgjöf fyrir markið þar sem Hakim Ziyech var mættur og skilaði boltanum í netið.

Luis Suarez átti hálffæri áður en flautað var til hálfleiks en Chelsea menn í góðri stöðu í hálfleik. Diego Simeone breyti um leikkerfi; í 3-5-2 og vonaðist eftir betri síðari hálfleik frá sínum mönnum.

Það voru hins vegar heimamenn sem réðu lögum og lofum í síðari hálfleik. Atletico gekk ekkert að skapa sér af færum og heimamenn voru líklegri til að bæta við ef eitthvað var.

Luis Suarez var meðal annars skipt út af eftir klukkutímaleik og þeir áttu ekki skot á mark Chelsea frá 39. mínút þangað til rúmur stundarfjórðungur var eftir af leiknum.

Ekki skánaði það fyrir Atletico níu mínútum fyrir leikslok er Stefan Savic fékk beint rautt spjald fyrir að gefa Antonio Rudiger olnbogaskot.

Atletico fengu gott færi í uppbótartíma en það voru heimamenn sem skoruðu annað markið. Eftir aðra skyndisókn skoraði varamaðurinn Emerson með sinni fyrstu snertingu.

Chelsea er því komið í átta liða úrslitin og verða því þrjú lið í pottinum er dregið verður á föstudaginn. Auk Chelsea eru Manchester City og Liverpool frá Englandi í pottinum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira