Sport

Serena brast í grát á blaðamannafundi eftir tap fyrir Osaka

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Serena Williams þakkar áhorfendum fyrir stuðninginn eftir leikinn gegn Naomi Osaka.
Serena Williams þakkar áhorfendum fyrir stuðninginn eftir leikinn gegn Naomi Osaka. getty/Jason Heidrich

Serena Williams tapaði fyrir Naomi Osaka, 6-3 og 6-4, í undanúrslitum á Opna ástralska meistaramótinu í tennis. Ekkert verður því af því að Serena vinni sinn 24. titil á risamóti.

Osaka mætir Jennifer Brady í úrslitaleik Opna ástralska á laugardaginn. Osaka getur þar unnið sinn fjórða risatitil á ferlinum.

Eftir leikinn þakkaði Serena áhorfendum í Rod Laver Arena fyrir sig og í kjölfarið veltu margir fyrir sér framtíð hennar.

Klippa: Osaka í úrslit Opna ástralska

„Ég veit ekki. Ef ég kveð einhvern tímann myndi ég ekki segja neinum það,“ sagði Serena á blaðamannafundi eftir leikinn gegn Osaka.

Þegar Serena var spurð út í mistökin sem hún gerði í leiknum brast hún í grát. „Ég veit ekki. Ég er búin,“ sagði Serena áður en hún gekk af blaðamannafundinum.

Klippa: Serena á blaðamannafundi

Hin 39 ára Serena hefur unnið 23 risatitla á glæsilegum ferli og vantar aðeins einn titil til að jafna met Margaretar Court.

Síðan Serena sneri aftur eftir að hafa eignast dóttur sína 2018 hefur hún tapað öllum fjórum leikjum sínum í undanúrslitum eða úrslitum risamóta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×