Körfubolti

Daníel: Þetta var galið, algjörlega galið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Daníel Guðna Guðmundssyni, þjálfara Grindavíkur, fannst sínir menn vera linir í leiknum gegn ÍR.
Daníel Guðna Guðmundssyni, þjálfara Grindavíkur, fannst sínir menn vera linir í leiknum gegn ÍR. vísir/hulda margrét

Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur, var langt frá því að vera hamingjusamur eftir tapið fyrir ÍR, 98-76, í kvöld.

„ÍR-inga virtist langa miklu meira til að vinna þennan leik. Við vorum mjög linir í öllum okkar aðgerðum,“ sagði Daníel við Vísi eftir leik. 

Hann var sérstaklega ósáttur með hversu mörg sóknarfráköst ÍR-ingar tóku í leiknum.

„Þetta var galið, algjörlega galið. Ég er ólýsanlega svekktur með það. Þú vinnur ekki marga körfuboltaleiki þegar hitt liðið fær endalaus tækifæri í sókn. Þetta var mjög slakt.“

Eftir jafnan fyrri hálfleik tóku ÍR-ingar fram úr Grindvíkingum í 3. leikhluta sem þeir unnu, 29-16. Eftir það var róður gestanna mjög þungur.

„Við flýttum okkur alltof mikið gegn pressunni og svæðisvörninni þeirra. Við ætluðum að reyna að komast í gegnum það með einhverju drippli. Það gekk ekki. Þeir komu út í svæðisvörn í 3. leikhluta eins og þeir hafa gert og við vorum búnir að undirbúa okkur fyrir það, taldi ég. En það var mjög veikt hvernig við lokuðum okkar sóknaraðgerðum,“ sagði Daníel.

Grindavík vann frábæran sigur á Stjörnunni í síðustu umferð en tók skref til baka í kvöld sem Daníel var svekktur með.

„Algjörlega, því okkur langar að tengja saman sigurleiki og fá tvö stig í hvert skipti. En þetta er langt en knappt tímabil og það koma góðir og slakir leikir inn á milli,“ sagði Daníel. „Mér fannst þetta lélegt, bara mjög lélegt.“


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×