Skoðun

Ónýtir vegir á sunnanverðum Vestfjörðum

Halla Signý Kristjánsdóttir skrifar

Síðustu daga höfum við fylgst með fréttum af miklum slitlagsskemmdum á Bíldudalsvegi, á Mikladal og í Tálknafirði. Þessar fréttir koma líklega ekki á óvart þar sem Bíldudalsvegur í heild sinni var metin ónýtur fyrir nokkru. Þá hefur verið haft eftir svæðisstjóra Vegagerðarinnar að það kosti milljarð að koma veginum í samt lagt aftur. En hvað kostar að gera það ekki?

Þegar litið er til samgangna á sunnanverðum Vestfjörðum erum við enn stödd á síðust öld og þarf ekki að fjölyrða frekar um það. Til þess að komast á milli byggðakjarna á svæðinu þarf að fara yfir fjallvegi sem eru erfiðir á veturna. Núverandi vegir eru engan veginn byggðir fyrir þá umferð sem þar er. Þungaflutningar eru miklir og almenn umferð hefur aukist vegna atvinnu og þjónustu. Þá eru lokanir á vegum algengar yfir veturna bæði á milli byggðarlaganna þriggja og á Kleifaheiði á Barðastrandavegi. Þessar lokanir hafa mikil áhrif, enda er um eitt vinnusóknarsvæði að ræða.

Jarðgöng er lausnin

Það þarf að skoða af alvöru áætlanir um jarðgöng milli byggðarkjarna á sunnanverðum Vestfjörðum. Með tilliti til byggðaþróunar, daglegrar vinnusóknar og ekki síður vegna aukinnar umsvifa fiskeldis sem skila þjóðarbúinu tugi milljarða í útflutningstekjur þá þurfa samgöngur að vera skilvirkar, öruggar og heilsárs. Jarðgöng frá Patreksfirði yfir í Tálknafjörð yrðu rétt um 3.5 km. og myndu leysa af hólmi umferðamikinn og ónýtan veg um Mikladal. Fleiri jarðgöng eru möguleg og eiga vera á áætlun.

Það er dýrara fyrir þjóðarbúið að aðhafast ekkert í vegamálum á Bíldudalsvegi en að fara í uppbyggingu. Þá er ótalin sú slysahætta sem hlýst af því að hafa slæma vegi. Já vissulega kostar milljarða að byggja upp vegi, en ef þjóðarbúið hefur hug á að nýta sér ágóðann af mikilvægri útflutningsgrein sem stunduð er á svæðinu þarf að byggja upp góðar samgöngur. Áfram veginn.

Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Verður þér að góðu?

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, ,Hólmfríður Sigþórsdóttir skrifar

Sjá meira


×