Lífið

„Deadliest Catch“-stjarna látin

Atli Ísleifsson skrifar
Nick McGlashan var af ætt krabbaveiðimanna frá Alaska.
Nick McGlashan var af ætt krabbaveiðimanna frá Alaska. Discovery

Bandaríkjamaðurinn Nick McGlashan, sem margir þekkja úr sjónvarpsþáttunum Deadliest Catch á Discovery Channel, er látinn, 33 ára að aldri.

Deadliest Catch er bandarískur raunveruleikaþáttur sem hefur verið á dagskrá Discovery Channel frá árinu 2005. Í þáttunum er fylgst með hópi sjómanna á bátum að veiðum í Beringshafi, nyrst í Kyrrahafi, milli Rússlands og Alaska.

Discovery segir frá því að McGlashan hafi verið sjöundu kynslóðar sjómaður og tekið þátt í 78 þáttum Deadliest Catch. Hann birtist fyrst í níundu þáttaröð Deadliest Catch, þá sem nýliði á bátnum Cape Caution.

Í september síðastliðinn kom hann svo aftur fram í þáttunum, en í þetta sem bátsmaður á Summer Bay.

Bandarískir fjölmiðlar segja McGlashan hafa látist í Nashville í Tennessee á sunnudaginn. Ekki liggur fyrir hvað dró McGlashan til dauða.

Glímdi við áfengisfíkn

Discovery minnist McGlashan og segir hann hafa verið af ætt krabbaveiðimanna í Alaska og með mikla þekkingu á faginu. Þá hafi hann verið með mikið skopskyn, meira að segja í verstu aðstæðum. Hans verði saknað.

Variety segir að McGlashan hafi glímt við áfengisfíkn og verið vísað frá tökustað við framleiðslu á þrettándu þáttaröðinni. Hann hafi verið edrú síðan og veitt öðrum innblástur til að snúa baki við áfenginu.

McGlashan er annar þátttakandinn í Deadliest Catch sem fellur frá á árinu, en í sumar bárust fréttir af því að Mahlon Reyes hafi látist af völdum hjartaáfalls á heimili sínu í Whitefish í Montana. Hann varð 38 ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×