Sport

Sara setti naglana undir fyrir æfingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir keppir við íslenska veturinn þessa dagana.
Sara Sigmundsdóttir keppir við íslenska veturinn þessa dagana. Instagram/@sarasigmunds

Sara Sigmundsdóttir lét ekki íslenska vetrarveðrið koma í veg fyrir útiæfingu í gær.

Íslenska CrossFit stjarnan Sara Sigmundsdóttir er kannski vön því að vera í eyðimerkursólinni í Dúbaí á þessum tíma ársins en í staðinn er hún að púla út í kuldanum á Íslandi.

Sara sagði frá og birti myndband af sér á æfingu í gær en hún var þá að draga sleða út í desemberkuldanum.

„Þegar þú átt að bakka með sleða í tuttugu mínútur og býrð á Íslandi ... þá þarftu að setja nagla undir skóna þína,“ skrifaði Sara og í myndbandinu sést hún draga sleða með lóðum á út í kuldanum.

Það má búast við að hún hafi þarna verið að æfa einhvers staðar á Reykjanesinu sem hún hefur verið dugleg að auglýsa að undanförnu.

„Ég viðurkenni að ég var ekki spennt fyrir þessari æfingu fyrir fram en besta tilfinningin er eftir svona æfingu þegar þú klárar hana þrátt fyrir óþægindi og kulda,“ skrifaði Sara.

Sara sagðist enn fremur vera komin í 1-0 á móti íslenska veðrinu.

Sara Sigmundsdóttir hefur ekkert farið leynt með ást sína á sólinni og á þessum tíma ársins hefur hún tekið þátt í Dúbaí CrossFit mótinu sem fór sem 11. til 14. desember í fyrra.

Sara vann mótið fyrir ári síðan en kórónuveirufaraldurinn sá til þess að mótið fór ekki fram í ár.

Sara er samt á fullu að undirbúa sig fyrir komandi CrossFit tímabil þar sem stefnan er að toppa á heimsleikunum næsta haust.

Hér fyrir neðan má sjá þessa færslu Söru á Instagram um útiæfinguna í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×