Fótbolti

Þjálfari Frederiks fékk boltann í höfuðið á æfingu og er frá út árið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Christian Nielsen í leik gegn Midtjylland fyrr á þessari leiktíð.
Christian Nielsen í leik gegn Midtjylland fyrr á þessari leiktíð. Jan Christensen / FrontzoneSport

Christian Nielsen, þjálfari Lyngby í danska boltanum, mun ekki stýra liðinu út árið eftir að hafa fengið bolta í höfuðið á æfingu.

Fyrir rúmri viku síðan fékk Nielsen boltann í höfuðið af stuttu færi á æfingu og fékk heilahristing sem hefur haldið honum frá vellinum.

Hann missti af leiknum gegn Slagelse í dönsku bikarkeppninni og nú hefur Lyngby staðfest að Nielsen geti ekki stýrt liðinu það sem eftir er af árinu 2020.

„Ég er miður mín að geta ekki verið í kringum liðið og ég sakna hversdagsins í félaginu. En stundum fær maður ekki val og það rétta fyrir mig núna er að passa upp á heilsuna og fá ró og næði næstu vikurnar,“ sagði Nielsen.

Lyngby er í bullandi fallbaráttu en Frederik Schram, markvörðurinn íslenski, er á mála hjá félaginu. Carit Falch, U19-ára þjálfari félagsins, mun stýra liðinu í komandi leikjum.

Fyrsti leikur hans verður á föstudaginn er annað Íslendingalið í fallbaráttunni, Horsens með Kjartan Henry Finnbogason og Ágúst Eðvald Hlynsson, kemur í heimsókn til Lyngby.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×