Innlent

Enn ekki náðst að ræða við fólkið í bílnum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bíllinn alelda á vettvangi slyssins 6. nóvember.
Bíllinn alelda á vettvangi slyssins 6. nóvember.

Lögregla hefur enn ekki náð að ræða við karl og konu sem lentu í alvarlegu bílslysi í Öxnadal í Hörgársveit fyrr í mánuðinum. Fólkið liggur enn á sjúkrahúsi, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á Norðurlandi eystra.

Maðurinn og konan slösuðust bæði alvarlega í slysinu og voru lögð inn á gjörgæslu á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Bergur Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglu á Norðurlandi eystra segir í samtali við Vísi að lögregla hafi einbeitt sér að ummerkjum á vettvangi. Verið sé að vinna úr þeim gögnum sem þar voru tekin og markmiðið að skýra hvað gerðist. Ekki sé hægt að gefa frekari upplýsingar um rannsóknina. Komið hefur fram að lögregla hafi m.a. notað þrívíddarskanna til rannsóknar á vettvangi.

Líkt og áður segir er fólkið, karl og kona á þrítugsaldri, enn á sjúkrahúsi en Bergur hefur ekki upplýsingar um líðan þess. Hann viti þó að þau hafi hlotið talsverða áverka í slysinu.

Slysið varð á þjóðvegi 1 til móts við bæinn Syðri-Bægisá í Öxnadal í Hörgársveit rétt fyrir klukkan hálf þrjú á föstudag. Samkvæmt ummerkjum á á vettvangi var bifreiðinni ekið til norðurs en hafnaði síðan út af veginum og valt nokkrar veltur. Við það kom eldur upp í henni og varð hún fljótt alelda.

Manninum tókst að komast út úr bílnum af sjálfsdáðum en konan vankaðist við veltina og þurfti að hjálpa henni út. Þau voru svo bæði flutt með sjúkrabílum á Sjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×