Sport

Norð­menn á­huga­samir um það hvernig körfu­bolta­strákurinn breyttist í Fjallið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hafþór Júlíus Björnsson með Arnold Schwarzenegger eftir að Hafþór vann Arnold Strongman Classic.
Hafþór Júlíus Björnsson með Arnold Schwarzenegger eftir að Hafþór vann Arnold Strongman Classic. Getty/Frank Jansky

Hafþór Júlíus varð um helgina fyrsti maðurinn til að lyfta 501 kílóum í réttstöðulyftu og bætt þar sem heimsmet Eddie Hall sem hann ætlar svo að berjast við í hnefaleikum í Las Vegas á næsta ári.

Það vekur sérstaka athygli hjá blaðamanni VG að Hafþór Júlíus hafi verið efnilegur körfuboltamaður á sínum tíma en Hafþór sjálfur hefur birt myndir af sér í körfuboltabúningi á samfélagsmiðlum sínum.

Á þeim myndum hefur mikið vatn runnið til sjávar á meðan Hafþór Júlíus hefur breyst úr körfuboltastrák í Sir Gregor „The Mountain“ Clegane í „Game of Thrones“ og sterkasta mann heims.

Blaðamaður VG segir að Hafþór hafi verið efnilegur leikmaður að eigin mati. „Ég var nokkuð góður en ég fótbrotnaði tvisvar,“ hefur hann eftir Hafþóri í viðtali við Men’s Health.

„Ég held að ástæðan hafi verið ofþjálfun. Ég var í salnum og að æfa þrisvar á dag,“ sagði Hafþór.

Hafþór spilaði á árunum 2004 til 2008 síðast með liði FSu á Selfossi.

Hafþór setti körfuboltaskóna upp á hilluna tvítugur og sneri sér frekar að kraftagreinum.

Hafþór Júlíus Björnsson náði reyndar aðeins að spila fjóra leiki í úrvalsdeildinni en það var með KR tímabilið 2006-07. Hafþór hjálpaði hins vegar FSu að komast upp í úrvalsdeildina veturinn 2007-08.

Hafþór varð Norðurlandameistari með sextán ára landsliðinu og á alls 32 leiki fyrir yngri landslið Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×