Innlent

Umferð um Múlagöng að róast

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Úr vefmyndavél Vegagerðarinnar má sjá að umferð í gegnum Múlagöng er farin að róast.
Úr vefmyndavél Vegagerðarinnar má sjá að umferð í gegnum Múlagöng er farin að róast. Skjáskot
Þung umferð hefur verið í gegnum Múlagöng í dag eftir að veginum um Öxnadalsheiði var lokað vegna bílveltu í hádeginu. Lögreglan hefur stýrt bílaumferð í gegnum göngin og hleypt bílum inn í hollum. Fyrir vikið hafa myndast langar bílaraðir við báða munna gangnanna, sem þó eru farnar að styttast að mati lögreglunnar á Dalvík.

Tvö slys hafa varpað skugga á umferðina á Norðurlandi í dag. Fólksbíll valt á Ólafsfjarðarvegi í hádeginu og slasaðist ökumaður bílsins, sem fluttur hefur verið á sjúkrahús á Akureyri til aðhlynningar.

Í fyrrnefndu slysi á Öxnadalsheiði valt olíuflutningabíll með þeim afleiðingum að um 17 þúsund lítrar af olíu láku úr tanki hans. Viðbragðsaðilar lokuðu veginum yfir heiðina meðan á aðgerðum þeirra stóð og áætlar Vegagerðin að vegurinn opni aftur um „kvöldmatarleytið,“ eins og það er orðað.

Á meðan var umferðinni beint um Ólafsfjarðargöng og féll það fyrst um sinn í skaut lögreglunnar að stýra umferð um göngin. Í samtali við Vísi segir lögreglumaður á Dalvík að umferðin sé farin að róast, eftir töluvert álag í dag.

Komið var upp sjálfstýrðri umferðarslá við munna gangnanna og útskýrir lögreglumaðurinn að ökumaður sem kemur að slánni, í þann mund sem hún er að síga niður, þurfi að bíða í um 15 mínútur eftir að hún lyftist aftur.

Það gefi ökumönnum við hinn munna gangnanna nægan tíma til að aka í gegnum göngin og komi í veg fyrir að bílar festist í göngunum- „en það þýðir auðvitað líka að aðrir þurfa að bíða svolítið,“ segir lögreglumaðurinn.

Hann segist þó ekki geta áætlað hversu margir bílar hafi komist í gegnum göngin í hverju holli, það fari allt eftir því hversu vakandi ökumenn eru þegar sláin fer upp aftur. Helsti flöskuhálsinn virðist vera þegar ökumenn ná ekki að halda jöfnum hraða í gegnum göngin, þar sem hámarkshraði er 50 km/klst.

Sem fyrr segir er farið að draga úr umferð í gegnum göngin og gert ráð fyrir að vegurinn um Öxnadalsheiði verði aftur opnaður í kvöld.


Tengdar fréttir

Öxnadalsheiði lokað vegna slyss

Búið er að loka Öxnadalsheiði vegna umferðarslyss skammt vestan Grjótár, á meðan á björgunaraðgerðum stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×