Körfubolti

Harden í ham er Houston fór létt með Boston | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
James Harden skorar og skorar.
James Harden skorar og skorar. vísir/getty
Houston Rockets fór tiltölulega létt með að leggja Boston Celtics að velli í NBA-deildinnni í körfubolta í nótt en gestirnir náðu fljótt miklu forskoti og héldu út og unnu níu stiga sigur, 115-104.

Það var smá bras á Houston undir lokin þegar að Boston kom með áhlaup í fjórða leikhluta en það var líka án síns besta manns í restina, James Harden, sem fékk sex villur og þurfti frá að hverfa.

Það kemur væntanlega ekki nokkrum lifandi manni á óvart að Harden var stigahæstur sinna manna með 42 stig en þetta er í 24. skipti á tímabilinu sem að hann skorar 40 stig eða meira í leik. Hann skoraði sex þriggja stiga körfur.

Houston er nú búið að vinna fimm leiki í röð og situr í fimmta sæti vestursins en Oklahoma City Thunder er aðeins einum sigri á undan sem og Portland sem að vann í nótt. Það er mjótt á mununum í baráttunni í vestrinu.

Russell Westbrook sýndi hvað í honum býr í flottum endurkomusigri OKC Thunder á heimavelli gegn Memphis Grizzlies í nótt, 99-95, en OKC sneri við leiknum í fjórða leikhluta.

Heimamenn voru mest sjö stigum undir en Westbrook fór í gang, skoraði tólf af 22 stigum sínum í leiknum í síðasta fjórðungnum og kláraði leikinn fyrir Thunder en liðið var búið að tapa fjórum í röð áður en kom að leiknum í nótt.

OKC var án Paul George sem er frá vegna meiðsla á öxl en Denis Scrhörder skoraði 17 stig, tók tólf fráköst og gaf sex stoðsendingar fyrir Thunder sem er áfram í baráttu um efstu sætin í vesturdeildinni.

Úrslit næturinnar:

Charlotte Hornets - Portland Trail Blazers 108-118

Boston Celtics - Houston Rockets 104-115

Chicago Bulls - Atlanta Hawks 118-123

LA CLippers - NY Knicks 128-107

Cleveland Cavaliers - Orlando Magic 107-93

Detroit Pistons - Toronto Raptors 112-107

Washington Wizards - Minnesota Timberwolves 135-121

OKC Thunder - Memphis Grizzlies 99-95

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×