Körfubolti

Valur burstaði Hauka

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hallveig Jónsdóttir og stöllur hennar eru heitasta lið landsins um þessar mundir
Hallveig Jónsdóttir og stöllur hennar eru heitasta lið landsins um þessar mundir vísir/bára
Valur valtaði yfir Hauka í Domino's deild kvenna í körfubolta í kvöld. Haukar fóru heilan leikhluta án þess að setja stig í leiknum.

Valskonur eru í harðri baráttu á toppi Domino's deildarinnar en þær hafa verið algjörlega óstöðvandi síðustu vikur, ekki tapað síðustu 12 deildarleikjum fyrir leikinn á Hlíðarenda í kvöld.

Haukar hafa hins vegar að litlu að keppa, þær eru öruggar frá falli og ljóst að þær fara ekki í úrslitakeppnina.

Það tók heimakonur þrjár og hálfa mínútu að setja fyrstu stigin sín en þá fóru þær á skrið og breyttu stöðunni úr 0-7 í 8-7. Haukar komust ekki aftur yfir í leiknum.

Í hálfleik var staðan 51-31 fyrir Val og ljóst hvoru megin sigurinn myndi falla. Hver hálfleiksræðan var inni í Haukaklefanum frá Ólöfu Helgu Pálsdóttur er óvitað, en hún hefur líklega ekki óskað eftir því sem hennar lið bauð upp á í þriðja leikhluta.

Haukar skoruðu ekki stig í leikhlutanum. Af 16 skotum sem Haukaliðið tók í leikhlutanum rataði ekki eitt ofan í körfuna.

Gestirnir fundu körfuna aftur í fjórða leikhluta en það var allt of seint. Leiknum lauk með 85-55 sigri Vals sem heldur því toppsæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×