Enski boltinn

Sarri: Hættulegt að setja of mikla pressu á Hudson-Odoi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Callum Hudson-Odoi fagnar marki sínu í gær.
Callum Hudson-Odoi fagnar marki sínu í gær. vísir/getty
Maurizio Sarri, knattspyrnustjóri Chelsea, segir hættulegt að setja of mikla pressu á ungstirnið Callum Hudson-Odoi en það getur haft áhrif á framþróun hans sem fótboltamanns.

Mikið hefur verið rætt og ritað um enska táninginn í vetur þar sem að hann fær of lítið að spila að mati stuðningsmanna og sparkspekinga en þýska stórliðið Bayern München vill fá hann í sínar raðir.

Hudson-Odoi spilaði vel á undirbúningstímabilinu en hefur fengið fá tækifæri í vetur undir stjórn Sarri og er sagður sjálfur vilja komast burt til þess að fara að spila reglulega.

Strákurinn ungi kom inn á gegn Dynamo Kiev í Evrópudeildinni í gærkvöldi og skoraði í 3-0 sigri Chelsea en hann er nú búinn að koma með beinum hætti að sjö mörkum í síðustu sjö leikjum sínum á Stamford Bridge.





„Ég er viss um að hann getur orðið mjög góður en hann þarf ekkert að sanna fyrir mér. Hann er góður leikmaður en þarf að bæta sig. Hann getur ekki verið á toppnum 18 ára gamall,“ segir Sarri.

„Hann verður tilbúinn til að fara á toppinn svona 22 eða 23 ára. Við þurfum að hjálpast að við að gera hann betri án pressu frá fjölmiðlum, stuðningsmönnum eða félaginu.“

„Það er hættulegt að vera með svona mikla pressu á sér 18 ára gamall. Þá geta menn farið af réttri leið. Takmarkið er að bæta sig þannig að svona pressa er hættuleg og þess vegna vil ég helst ekki tala um hann,“ segir Mauruzio Sarri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×