Enski boltinn

Gerrard svekkir sig enn yfir því þegar hann flaug á hausinn og Liverpool missti titilinn 2014

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard er enn að jafna sig eftir þennan leik fyrir næstum því fimm árum síðan.
Steven Gerrard er enn að jafna sig eftir þennan leik fyrir næstum því fimm árum síðan. Getty/ Andrew Powell
Steven Gerrard, fyrrum fyrirliði Liverpool-liðsins, er enn ekki búinn að komast almennilega yfir það þegar hans klúður átti mikinn þátt í því að Liverpool missti af Englandsmeistaratitlinum vorið 2014. Gerrard náði aldrei að verða enskur meistari með Liverpool-liðinu.

Liverpool á nú í fyrsta sinn síðan þá, raunhæfa möguleika á að enda biðina eftir Englandsmeistaratitli en liðið hefur verið að gefa eftir á síðustu mánuðum og er nú dottið niður í annað sætið á eftir Manchester City.

Steven Gerrard segir í viðtali við BBC að sárið hans sé enn opið síðan 2014 og það mun ekki lokast þótt að lærisveinar Jürgen Klopp endi 29 ára bið eftir titlinum í vor.





Steven Gerrard flaug á hausinn í heimaleik á móti Chelsea í blálok tímabilsins 2013-14 sem kostaði liðið dýrkeypt mark í 2-0 tapi. Þetta tap réði því öðru fremur að Manchester City varð enskur meistari.

„Þetta sár hefur verið opið allt frá því ég upplifði þetta árið 2014. Ég vona að Liverpool vinni titilinn en það breytir ekkert minningu minni frá þessum degi,“ sagði Steven Gerrard.

„Ég er samt ekkert að gera mikið geðveikan á því að hugsa of mikið um þetta en á sama tíma hef ég alltaf verið hreinn og beinn með þetta,“ sagði Gerrard.

„Þetta var svo stórt ár fyrir okkur. Þarna var titilinn sem ég náði aldrei að vinna og ég mun því alla tíð horfa til baka og óska þess að þetta hefði farið öðruvísi,“ sagði Gerrard.

Gerrard heldur enn þá sambandi við gömlu liðsfélaga sína í Liverpool og segir að dyrnar hjá sér séu alltaf opnar ef leikmenn vilja ræða við hann um að vera í titilbaráttunni.





„Það er fullkomlega eðlilegt að stuðningsmenn Liverpool vilji vinna þennan titil meira en nokkuð annað. Ég hef verið Liverpool stuðningsmaður síðan ég var sjö ára. Það var oft erfitt fyrir mig en ég pressan frá stuðningsfólkinu var aldrei að kæfa mig. Hún hjálpaði frekar en hindraði því ég vissi að þeir stæðu við bakið á okkur,“ sagði Gerrard.

„Liðið er með mikinn leiðtoga í Jürgen sem ég er viss um að sé að reyna að létta af pressunni og kvíðanum hjá þeim,“ sagði Gerrard um knattspyrnustjórann Jürgen Klopp.

Gerrard vill ekki tala um að tímabilið sé misheppnað vinni Liverpool ekki þennan langþráða titil. Liverpool er með 70 stig þegar níu leikir eru eftir og hefur aldrei verið með fleiri stig á sama tíma.

„Sumt fólk í heiminum mun líta á það sem misheppnað tímabil en þannig eru fótboltinn og skoðanir á honum. Jürgen hefur tekið risastórt skref fram á við með liðið og er að gera allt sem hann getur. Stundum í fótboltanum, þegar einhver vinnur þig, þá verður þú bara að viðurkenna að betra liðið vann,“ sagði Gerrard.

„Ég vona að það verði ekki raunin en ég held að þú getir ekki verið of sjálfgagnrýninn ef þú hefur staðið þig frábærlega og ert með í titilbaráttunni yfir höfuð,“ sagði Gerrard.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×