Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan 28-29 Fram | Fram marði sigur í hörkuleik

Gabríel Sighvatsson skrifar
Þórey Anna Ásgeirsdóttir, leikmaður Stjörnunnar.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir, leikmaður Stjörnunnar. vísir/daníel þór
Stjarnan tók á móti Fram í TM-Höllinni í kvöld. Úr varð hörkuleikur milli tveggja liða sem voru að berjast á sitthvorum enda töflunnar.

Fram átti ekki í erfiðleikum í fyrsta leik liðanna á tímabilinu en síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og Stjarnan veitt Frömurum samkeppni allan leikinn.

Í hálfleik hafði Stjarnan skorað 17 mörk og vörnin hjá Fram ekki upp á sitt besta. Í seinni hálfleik skánaði vörnin og Stjarnan átti erfitt með að skora.

Fram þurfti að hafa fyrir þessu en á lokamínútunum sigldu þær framúr Stjörnunni þegar afdrifarík atriði féllu ekki með þeim.

Fram tók að lokum stigin tvö, lokatölur 28-29 en liðin mætast aftur í bikar á fimmtudag.

Af hverju vann Fram?

Fram spilaði ekki sinn besta leik í fyrri hálfleik og var því undir. Vörnin fór að smella í seinni hálfleik og um leið og Stjarnan hætti að skora varð lífið auðveldara fyrir gestina.

Þetta gat dottið báðum megin í dag en líklega sýndi Fram aðeins meiri gæði þegar leið á leikinn. Fram er eitt besta liðið í deildinni í dag og var ekki hægt að biðja um mikið meira frá Stjörnunni.

Hvað gekk illa?

Í fyrri hálfleik var bras á Fram. Sóknin mallaði ágætlega en vörnin átti í vandræðum. Erla Rós hélt þeim inni í þessu um tíma en hálfleikstölur voru 17-15.

Í seinni hálfleik komu gestirnir sterkir til leiks og jöfnuðu fljótt metin. Sókn beggja liða var í vandræðum um miðbik seinni hálfleiks en undir lok leiks náði Fram góðum kafla sem fór langleiðina með leikinn.

Hverjir stóðu upp úr?

Ragnheiður Júlíusdóttir var mikið tekin úr umferð en átti þrátt fyrir það fínan leik, var markahæst með 9 mörk. Steinunn Björnsdóttir skoraði 5 mörk líkt og Þórey Rósa Stefánsdóttir sem fór þó illa með mörg færi.

Rakel Dögg Bragadóttir skoraði 8 mörk fyrir Stjörnunni og átti flottan leik. Hildur Einarsdóttir var góð í 45 mínútur fyrir Stjörnuna með 12 varða bolta.

Hvað gerist næst?

Liðin mætast aftur á fimmtudaginn í undanúrslitum bikarsins og má búast við öðrum hörkuleik þá. Fram heldur pressu á Val sem er á toppnum eftir sigur gegn Selfoss í kvöld.

Stjarnan er áfram í 6. sæti og umspilssæti fjarlægur draumur en þurfa ekki að hafa áhyggjur af falli enn sem komið er.

Basti: Hörkuleikur við besta lið landsins

„Ég er mjög svekktur en að sama skapi get ég ekki annað en verið ánægður með leik liðsins. Við erum að tala um tvö lið sem mættust fyrri 4 mánuðum síðan, þá fengum við 47 mörk á okkur og töpuðum með 24. Í dag erum við bara í hörkuleik við það sem ég segi að sé besta lið landsins,” sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Stjörnunnar, eftir eins marks tap í kvöld.

„Við getum gert örlítið meira á fimmtudaginn en þetta er klókasti þjálfari landsins, það verður erfitt að svara þessu, hann kemur örugglega með eitthvað flott, ég vona að ég geti "match-að" það.”

Það var ekki mikið sem Stjarnan hefði getað gert meira í kvöld en þær voru að spila við frábært lið.

„Þegar þú ert að spila við svona rosalega gott lið og þú ert að leggja þig allan fram þá er þetta bara spurning um nokkur smáatriði. Við tökum eitt stangarskot, það er eitt tvö atriði sem falla ekki með okkur hjá annars ágætum dómurum leiksins, hef ekkert út á það að setja. En eins og við leikmenn gerum við ein, tvö mistök á ögurstundu. Þau komu bara á óheppilegum augnablikum fyrir okkur,”

„Ég fékk allt sem ég vonaðist til en þetta var bara örlítið of lítið á móti þessu frábæra liði.”

Basti var ekki nógu ánægður með byrjunina í seinni hálfleik og sagði að brottvísanir seint í leiknum hefðu gert þeim erfitt fyrir.

„Við vissum að þeir kæmu reiðar og æstar og koma einu level-i grimmari út. Við vorum ekki tilbúnar í það en ég sem betur fer tók leikhlé strax og stoppaði það.”

„Við lendum í því að fá brottvísanir, það er erfitt að spila einum færri á móti svona góðu liði sérstaklega að verjast þeim. Þetta liggur bara í smáatriðunum. Ég vona að smáatriðin verði okkar á fimmtudaginn.” sagði Basti að lokum en liðin mætast í bikarleik eftir tvo daga.

Stefán: Ef maður vinnur deildarleikinn þá tapar maður bikarleiknum

„Ég er ótrúlega ánægður með stigin tvö, við vissum að þær myndu gefa okkur hörkuleik, Stjarnan gerði jafntefli við Val og unnu Hauka þannig að það var ljóst að þetta yrði hörkuleikur og þess vegna var ég ánægður með að vinna.” sagði Stefán Arnarson, þjálfari Fram, eftir leikinn í kvöld.

Varnarleikurinn var bras í fyrri hálfleik en Stefán lagði áherslu á að laga hann í seinni hálfleik.

„Við fengum 17 mörk á okkur í fyrri hálfleik, það hefur gerst tvisvar í vetur og það gengur ekki. Svo spiluðum við betri vörn og þá fengum við ódýru mörkin og þess vegna unnum við.”

„Þetta er virkilega gott lið með reynda og góða leikmenn í öllum stöðum þannig að það kom okkur ekkert á óvart.”

„Númer eitt, tvö og þrjú var að spila betri vörn og við vildum fá meiri hraða í leikinn, þetta var svolítið hægur fyrri hálfleikur og þegar við náðum að laga það þá gekk mun betur.”

Fram mætir Selfoss í næsta deildarleik en fyrst eiga þeir bikarleiki.

„Við erum einu stigi á eftir Val og ætlum að reyna að vinna næsta leik sem er Selfoss.”

„Það er Stjarnan á fimmtudaginn og Dolli, vinur minn í pottunum, hann segir að ef maður vinnur deildarleikinn þá tapar maður bikarleiknum þannig að Stjarnan er líklegri þar. Ég býst við mjög jöfnum og erfiðum leik, það er alveg ljóst.”

Steinunn: Þetta var toppslagur

Steinunn Björnsdóttir, leikmaður Fram, skoraði 5 mörk í kvöld og átti góðan leik er Fram sótti tvö stig í Garðabæ.

Hún hrósaði Stjörnunni og sagðist hafa búist við erfiðum leik.

„Við vissum að þetta yrði erfiður leikur. Að fá á okkur 17 mörk í fyrri hálfleik er ekki ásættanlegt.”

„Mér fannst við þéttari í seinni hálfleik og fundum okkur betur í vörninni. Þá fannst mér við fá meira sjálfstraust og náðum smá yfirtölu og þá gekk þetta.”

„Það er alltaf erfitt að koma hingað. Stjarnan er með frábært lið og eru búnar að vera á miklu "run-i" síðustu leiki, eins og við. Þetta var toppslagur, Stjarnan á að vera miklu ofar en þær eru.”

Seinni hálfleikurinn var betri hjá Fram og þær náðu að klára þetta með góðri vörn.

„Ef við hefðum spilað sama varnarleik í fyrri og í seinni hálfleik þá hefðum við ekki unnið þennan leik. Við vissum að við þyrftum að þétta varnarleikinn og þá kom meiri markvarsla og miklu meira sjálfstraust. Þá vorum við líkari okkur að keyra upp, okkur leið miklu betur í seinni hálfleik.”

„Þær minnka þetta niður í eitt, síðasti leikur heima á móti þeim þá jafna þær og komast yfir í lokin, við vissum að þetta yrði mikið "ströggl". Mér fannst vanta smá "power" í okkur, þungt yfir okkur og vorum lengi í gang. Við vorum fastar í sporum í sóknarleiknum en vörnin kom í seinni hálfleik og þá kom sigurinn.”

Liðin mætast aftur á fimmtudag en Fram er líka í toppbaráttu í deildinni.

„Ég vona að þetta verði skemmtilegri handbolti og aðeins meiri hraði í þessu, vonandi (á fimmutdaginn.)”

„Það er bara einn leikur í einu eins og Stebbi (Arnarson) segir alltaf en við ætlum okkur að koma okkur á toppinn en það er nóg eftir.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira