United tók fimmta sætið af Arsenal

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Marcus Rashford getur ekki hætt að skora undir Solskjær
Marcus Rashford getur ekki hætt að skora undir Solskjær vísir/getty
Manchester United fór upp í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með eins marks sigri á Leicester í dag. Ole Gunnar Solskjær hefur enn ekki tapað leik eftir 10 leiki í stjórasætinu hjá United.

Marcus Rashford skoraði eina mark leiksins strax á níundu mínútu. Paul Pogba vann boltann á miðsvæðinu, átti frábæra sendingu inn á Rashford sem kláraði af öryggi í hans 100. úrvalsdeildarleik fyrir United.

Enginn leikmaður United hefur nú skorað fleiri mörk en Rashford á þeim tíma sem liðinn er síðan hann lék sinn fyrsta úrvalsdeildarleik fyrir Untied, í febrúar 2016.

Leikurinn var mjög fjörlegur og áttu bæði lið færi til þess að bæta fleiri mörkum við leikinn en markverðir beggja liða eru með þeim betri í úrvalsdeildinni og réðu við allar þær tilraunir sem á þá komu.

United var aðeins meira með boltann en það var þó Leicester sem ógnaði meira undir lok leiksins, enda heimamenn að reyna að sækja jöfnunarmarkið. Vörn United hélt og níundi sigurinn í tíu leikjum undir Solskjær raunin.

Sigurinn þýðir að United fer í 48 stig, einu stigi meira en Arsenal sem á þó leik til góða gegn Manchester City seinna í dag.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira