Körfubolti

Curry þurfti þrjá og hálfan leikhluta til þess að finna körfuna

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Stephen Curry.
Stephen Curry. vísir/getty
Meistararnir í Golden State Warriors unnu LeBron James-laust lið Los Angeles Lakers í Oakland í nótt. James Harden hélt áfram að raða niður stigunum fyrir Houston Rockets.

Það var aðeins hálfur fjórði leikhluti eftir af leiknum í Oakland í nótt þegar stórskyttan Stephen Curry skoraði loks stig í leiknum. Curry endaði þó leikinn með 14 stig.

Klay Thompson missti af síðasta leik Warriors vegna veikinda en snéri aftur í nótt og leiddi lið Golden State með 28 stigum.

Golden State er því enn jafnt Denver Nuggets á toppi vesturdeildarinnar.





Houston Rockets er aðeins í sjötta sæti vesturdeildarinnar en það er þó ekki við James Harden að sakast að liðið situr ekki ofar. Tuttugasta og sjötta leikinn í röð setti Harden niður 30 stig eða meira í leik þegar Houston sótti Utah Jazz heim.

Harden skoraði 43 stig í leik þar sem hann var með öll völd á vellinum. Leikmenn Utah réðu ekkert við hann og Houston vann öruggan 125-98 sigur.

Hann var með 12 fráköst, sex stolna bolta, fimm stoðsendingar og fjögur varin skot í frábærum leik sínum. Gerald Green bætti 25 stigum við fyrir Houston og Kenneth Faried var með 16 stig.





Besta lið deildarinnar til þessa er Milwaukee Bucks með 38 sigra, einum sigri meira en bestu liðin í vesturdeildinni. Bucks bættu 38. sigrinum við í nótt þegar liðið vann Washington Wizards á vesturströndinni.

Gríska undrið Giannis Antetokounmpo skoraði 37 stig fyrir Bucks, þar af var hann með 100 prósenta nýtingu af vítalínunni í 17 vítaskotum. Lið Bucks í heildina misnotaði ekki vítaskot í leiknum, liðið fékk 24 vítaskot.





Nýliðinn Luka Doncic heldur áfram að gera það gott fyrir Dallas Mavericks sem lögðu Cleveland Cavaliers 111-98.

Doncic skoraði 35 stig, sem jafnaði hans besta árangur í vetur, og var þess að auki með 11 fráköst. Harrison Barnes bætti 17 stigum við, þar af 13 í fjórða leikhluta, í leik sem Dallas leiddi nær allan tímann.





Úrslit næturinnar:

Detroit Pistons - LA Clippers 101-111

Charlotte Hornets - Chicago Bulls 125-118

Orlando Magic - Brooklyn Nets 102-89

Washington Wizards - Milwaukee Bucks 115-131

Cleveland Cavaliers - Dallas Mavericks 98-111

Miami Heat - Indiana Pacers 88-95

San Antonio Spurs - New Orleans Pelicans 113-108

Golden State Warriors - Los Angeles Lakers 115-101

Minnesota Timberwolves - Denver Nuggets 106-107

Phoenix Suns - Atlanta Hawks 112-118

Utah Jazz - Houston Rockets 98-125

Sacramento Kings - Philadelphia 76ers 115-108

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×