Körfubolti

Boston stoppaði sigurgöngu Oklahoma

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Kyrie Irving í leiknum í nótt
Kyrie Irving í leiknum í nótt vísir/getty
Kyrie Irving fór fyrir liði Boston Celtics sem marði sigur á Oklahoma City Thunder í bandarísku NBA deildinni í körfubolta í nótt.

Irving skoraði 30 stig og bætti 11 stoðsendingum við í 134-129 sigri Celtics sem lauk þar með sjö leikja sigurgöngu Thunder.

Boston er í staðinn komið á smá sigurgöngu, þetta var fjórði sigurinn í röð og sá níundi í síðustu tíu leikjum. Eina tapið kom gegn meisturunum í Golden State.

Paul George setti 37 stig fyrir Oklahoma er gestirnir reyndu hvað þeir gátu eftir að hafa verið undir nær allan leikinn. Russell Westbrook minnkaði muninn niður í tvö stig af vítalínunni þegar 45 sekúndur voru eftir af leiknum en nær komust gestirnir ekki.

Celtics situr nú í þriðja sæti austurdeildarinnar með 34 sigra, fjórum sigrum á eftir Milwaukee Bucks og Toronto Raptors.





Toronto tók á móti LA Clippers og vann nokkuð þægilegan sigur.

Fyrir leikinn kvartaði þjálfari Clippers Doc Rivers yfir því hvað hans lið fékk lítinn hvíldartíma inn á milli leikja, en þeir spiluðu í Detroit aðeins sólarhring áður.

Toronto leiddi með yfir tíu stigum allan seinni hálfleikinn svo Rivers henti handklæðinu inn snemma og fór að hvíla menn.

„Ég hélt þetta gæti orðið seinni hálfleiks leikur fyrir okkur, ef við næðum að halda í við þá og mögulega stela leiknum í seinni hálfleik, en við áttum bara enga orku eftir. Þess vegna fór ég að hvíla menn,“ sagði Rivers.

Kawhi Leonard skoraði 18 stig og Serge Ibaka 16 í 121-103 sigrinum sem var 10 sigurinn í síðustu 11 heimaleikjum Toronto.





Í New York töpuðu heimamenn í Knicks fyrir Memphis Grizzlies 84-96. Mike Conley setti 25 stig fyrir Grizzlies og Gasol 24 í fyrsta útisigri Grizzlies eftir níu töp í röð að heiman.

Vörn Grizzlies spilaði virkilega vel og hélt New York í 22 stigum eða minna í hverjum leikhluta sem skilaði þeim sigrinum.





Úrslit næturinnar:

New York Knicks - Memphis Grizzlies 84-96

Boston Celtics - Oklahoma City Thunder 134-129

Toronto Raptors - LA Clippers 121-103

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×