Körfubolti

Kobe Bryant: Harden getur ekki spilað svona ætli hann að verða NBA-meistari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant og James Harden.
Kobe Bryant og James Harden. Getty/Bob Levey
Kobe Bryant hrósar James Harden fyrir spilamennsku sína í NBA-deildinni að undanförnu en vildi samt vekja athygli á skoðun sinni á leikstíl Harden.

Harden hefur skorað yfir 30 stig í 27 leikjum í röð og NBA-deildin hefur ekki séð svona skorara í nokkra áratugi. Kobe Bryant er hins vegar á því að Houston Rockets geti ekki orðið NBA-meistari haldi Harden áfram að spila svona.

„Hann þarf að geta það sem liðið þarf á að halda til að vinna,“ sagði Kobe Bryant í viðtali í NBA-þættinum The Jump á ESPN.





„Þetta er aftur á móti margþætt. Ég er ekki hrifin af leikstíl sem þessum ætlir þú þér að vinna meistaratitilinn. Það er mín skoðun að svona spilamennska, eins og hjá Harden núna, vinni ekki titla,“ sagði Kobe Bryant.

Harden er mikið með boltann og heldur sóknarleik Houston Rockets uppi. Hann skorar líka flest stig sín án þess að fá stoðsendingu frá félaga sinum og býr því til skotin sín alveg sjálfur. Þetta kostar mikla orku og það er erfitt að halda slíkt út þegar baráttan harðnar í úrslitakeppninni.

„Á sama tíma verður þú að gera þitt til að halda liðinu þínu á floti. Hann er að gera það sem hann getur til að vinna leiki,“ sagði Kobe.

Kobe Bryant vann fimm titla með Losd Angeles Lakers en engin þeirra kom á þeim sex tímabilum þar sem hann reyndi mest að skora.

James Harden átti sinn tuttugasta 40 stiga leik í nótt. Hann var sammála Kobe Bryant þegar ummælin voru borin undir hann í leikslok en segir að þetta muni breytast þegar liðið endurheimtir öfluga leikmenn úr meiðslum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×