Körfubolti

Durant las fréttamönnum pistilinn: „Ég treysti ykkur ekki“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kevin Durant vill bara spila körfubolta.
Kevin Durant vill bara spila körfubolta. vísir/getty
Kevin Durant var stigahæstur Golden State Warriors í nótt þegar að liðið rústaði San Antonio Spurs en það lá samt ekkert sérstaklega vel á honum á fréttamannafundi eftir leik.

Durant hefur ekkert tjáð sig við fjölmiðlamenn undanfarna daga og vildu þeir fá að vita hvers vegna. Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Durants undanfarnar vikur og vilja margir meina að hann sé á leið til New York Knicks.

„Hvers vegna ertu að spá í þessu? Mig langaði bara ekki að tala síðustu daga,“ sagði Durant þegar að hann var spurður hvers vegna hann hefði forðast fjölmiðla undanfarna daga og fékk hann þá spurninguna um leikmannamarkaðinn.

„Það er eitthvað sem að þið talið um. Það er ykkar starf. Þetta er algjör óþarfi hjá ykkur. Eins og Ethan Strauss [Blaðamaður ESPN] sem labbar bara hér um gangana og segir sína skoðun á hlutunum. Hann talar ekki við mig eða neinn annan. Hann skrifar bara það sem hann vill og svo ráðist þig á mig út af skrifum hans,“ sagði Durant en Strauss heldur því fram að Durant fari til New York.

Kevin Durant vildi ekki tala við fjölmiðla í nokkra daga.vísir/getty
New York Knicks skipti frá sér Lettanum stóra Kristaps Porzingis á dögunum og er með pláss fyrir tvær risastjörnur í sumar.

„Ég ræð engu hjá New York Knicks og ég veit ekki hver sendi Porzingis í burtu. Þetta kemur mér bara ekki við. Ég er bara að spila körfubolta. Þið spyrjið mig á hverjum degi um leikmannamarkaðinn og æsið upp samherja mína, þjálfara og stuðningsmenn með þessu. Leyfið okkur bara að spila körfubolta,“ sagði pirraður Durant.

„Svo þegar að ég vil ekki tala við ykkur þá er það mitt vandamál. Í alvöru, reynið að þroskast. Ég mæti á hverjum degi á æfingu og geri mitt besta og er ekki með neitt vesen. Ég reyni að spila á réttan hátt og gera mitt allra besta í hvert sinn sem ég er með boltann. Hvað er vandamálið? Hvað gerði ég ykkur?“ sagði Durant.

Einn blaðamaðurinn í salnum benti á að Durant væri vanalega mjög málglaður og óhræddur við að segja skoðun sína á flestum málefnum. Því hefðu stuðningsmenn Golden State viljað fá svör við því hvers vegna hann væri allt í einu svona þögull.

„Hvað með það? Hvers vegna þarf ég að tala við ykkur? Verð ég betri í vinnunni minni ef ég tala við ykkur? Mig langaði bara ekki að tala við ykkur. Ég treysti ykkur ekki. Í hvert skipti sem ég tjái mig er snúið út úr orðum mínum og svo þegar að ég segi ekki neitt er það vandamál líka. Mig langar bara að spila körfubolta,“ sagði Kevin Durant.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×