Innlent

Ekki grunur um saknæmt athæfi í Grindavík

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Konan og maðurinn voru bæði búsett í Grindavík en myndin tengist fréttinni ekki að öðru leyti.
Konan og maðurinn voru bæði búsett í Grindavík en myndin tengist fréttinni ekki að öðru leyti. Fréttablaðið/Valli
Kona fannst látin í íbúðarhúsnæði í Grindavík síðdegis í gær. Einn var handtekinn vegna málsins en honum hefur verið sleppt. Ekki er grunur um saknæmt athæfi að því er fram kemur í tilkynningu sem barst frá lögreglunni á Suðurnesjum stundarfjórðung fyrir tólf.

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði í samtali við Vísi í morgun að einn hefði verið handtekinn vegna málsins. Honum hefur nú verið sleppt.

Frumrannsókn málsins er lokið og er gert ráð fyrir að rannsókn á málinu muni ljúka á næstunni. Samkvæmt heimildum Vísis hafði verið töluverð óregla á heimilinu þar sem konan fannst látin og maðurinn var handtekinn.

Það var á sjötta tímanum í gær sem lögregla og sjúkrabíll voru kölluð að heimili konunnar í Grindavík. Rannsókn á vettvangi stóð yfir fram eftir kvöldi.

Maðurinn sem var handtekinn á vettvangi og síðar sleppt hafði verið sambýlismaður konunnar. Hann er sömuleiðis á fimmtugsaldri.

Fréttin var uppfærð klukkan 11:48 eftir tilkynningu frá lögreglu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×