Innlent

Frost meira og minna út næstu viku

Samúel Karl Ólason skrifar
Í dag er spáð vestlægri eða breytilegri átt og él víða um land.
Í dag er spáð vestlægri eða breytilegri átt og él víða um land. Vísir/Vilhelm
Búist er við því að snjóa muni meira á næstu dögum. Veðurstofa Íslands spáir frosti meira og minna út alla næstu viku og það muni ganga á með úrkomubökkum. Hægviðri verði á morgun en mögulega muni rigna smá á fimmtudaginn.

Í dag er spáð vestlægri eða breytilegri átt og él víða um land. Þó verði úrkomulítið á N-landi. Norðvestan 8-13 og él úti við A-ströndina á morgun, annars yfirleitt hægviðri og bjart, en él á stöku stað við sjávarsíðuna. Frost 1 til 13 stig, kaldast inn til landsins.

Veðurhorfur næstu daga.

Á miðvikudag:

Breytileg átt, 3-8 m/s og víða bjartviðri, en stöku él við ströndina. Frost 2 til 16 stig, kaldast inn til landsins á N- og A-landi.

Á fimmtudag:

Gengur í austan og suðaustan 13-20 m/s með slyddu eða snjókomu, en suðvestlægari og rigning eða slydda við S-ströndina upp úr hádegi. Hiti 0 til 6 stig. Hægari suðlæg átt með éljum um kvöldið og kólnar.

Á föstudag:

Snýst í ákveðna norðaustanátt með snjókomu, en rofar til sunnan heiða. Harðnandi frost.

Á laugardag:

Útlit fyrir norðanhvassviðri með éljagangi, en mun hægara og yfirleitt bjartviðri V-til. Talsvert frost um allt land.

Á sunnudag:

Hægviðri, léttskýjað og hörkufrost, en vaxandi suðaustanátt og fer að snjóa S- og V-lands um kvöldið.

Á mánudag:

Breytilegar áttir, snjókoma eða él um land allt og áfram kalt í veðri.

Á vef Vegagerðarinnar segir að almennt sé vetrarfæri á landinu, hálka eða snjóþekja á flestum leiðum en lítill vindur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×