Innlent

Örplast fannst í fýlum og kræklingi við Íslandsstrendur

Kjartan Kjartansson skrifar
Fýlar fá að súpa seyðið af umhverfisspjöllum manna.
Fýlar fá að súpa seyðið af umhverfisspjöllum manna. Vísir
Um sjötíu prósent fýla sem Umhverfisstofnun lét rannsaka voru með örplast í maganum. Þá fannst örplast í fjöruklæklingi á öllum stöðum sem voru kannaðir. Stofnunin segir mikilvægt að landsmenn dragi verulega úr plastneyslu og flokki og endurvinni það.

Sagt er frá tveimur rannsóknum sem Umhverfisstofnun lét gera á plastmengun í hafinu við Ísland á vef stofnunarinnar. Kræklingur varð fyrir valinu því hann er sagður hentugur til að meta örplastmengun í hafi en fýllinn til að fá mynd af menguninni í yfirborði sjávar.

Meira en 0,1 gramm af örplasti fannst í um 16% fýlanna sem Náttúrustofa Norðausturlands rannsakaði. Um 3,65 plastagnir fundust í þeim að meðaltali. Örlítið meira af plasti reyndist í fýlum frá Norðausturlandi en frá Vestfjörðum og marktækt meira plast var í maga kvenfugla, bæði hvað varðar fjölda agna og þyngd þeirra.

Magainnihald fýla við kannað í rannsókn Náttúrustofu Norðausturlands.Umhverfisstofnun/NNA
Plastagnir fundust í 40-55% kræklinga á hverri stöð sem Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum skoðaði. Að meðaltali fundist 1,27 plastagnir í kræklingi, 0,35 á hvert gramm kræklings. Aðallega fundust í þeim plastþræðir sem voru af ýmsum gerðum og litum. Ekki var marktækur munur á fjölda plastagna í kræklingi á milli sex stöðva á landinu vestanverðu.

Í frétt á vef Umhverfisstofnunar kemur fram að þrátt fyrir þetta sé örplastmengun í kræklingi og fýlum minni við Ísland en í ýmsum öðrum löndum. Það breyti þó ekki því að Ísland sé ekki laust við plastmengun í hafi.

„Mikilvægt er að Íslendingar dragi verulega úr neyslu á plasti og flokki/endurvinni allt plast. Einnig þarf að bæta hreinsun á skólpi og ofanvatni til að koma í veg fyrir losun á plasti og örplasti í sjóinn,“ segir á vef Umhverfisstofnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×