Innlent

Segir fyrirferð RÚV og frumvarp ráðherra líklega ástæðu úttektar

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Páll Magnússon var útvarpsstjóri í átta ár og er nú þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Páll Magnússon var útvarpsstjóri í átta ár og er nú þingmaður Sjálfstæðisflokksins. fréttablaðið/ernir
Tilefni stjórnsýslu­úttektar Ríkisendurskoðunar á Ríkis­útvarpinu er hugsanlega fyrirferð fjölmiðilsins á samkeppnismarkaði og yfirvofandi fjölmiðlafrumvarp mennta- og menningarmálaráðherra. Þetta segir Páll Magnússon, formaður allsherjar- og menntamálanefndar og fyrrverandi útvarpsstjóri.

Eins og Fréttablaðið hefur greint frá tekur úttektin til fjármögnunar, reikningsskila og samkeppnisreksturs RÚV. Hún er að frumkvæði Ríkisendurskoðunar og er sú fyrsta sem gerð er á RÚV í 24 ár. Ríkisendurskoðandi upplýsir ekki um tilefnið fyrr en endurskoðun er lokið. Tímasetningin er þó líklega engin tilviljun.

Aðspurður segir Páll að hann telji út af fyrir sig jákvætt að farið sé í slíka úttekt, Ríkisendurskoðun hljóti að hafa sínar ástæður. „Hugsanlegt tilefni er auðvitað fyrirferð Ríkisútvarpsins almennt á þessum markaði. Það barst nú talsvert af kvörtunum yfir því hvernig Ríkisútvarpið gekk fram í auglýsingamálum í tengslum við HM í fótbolta. Svo hefur, af einhverjum ástæðum, stofnunin móast við að framfylgja þeim lagaáskilnaði að aðskilja beri samkeppnisrekstur stofnunarinnar og almannaþjónustu,“ segir Páll. Slíkt hljóti að koma til álita í úttekt Ríkisendurskoðunar.

„Það er líka á það að líta að þetta kemur á sama tíma eða rétt áður en mennta- og menningarmálaráðherra leggur fram boðað frumvarp um að bæta stöðu einkarekinna fjölmiðla á markaði. Og í því frumvarpi hlýtur að vera gert ráð fyrir því að það verði með einhverjum hætti minnkuð fyrirferð Ríkisútvarpsins. Sérstaklega sem snýr að auglýsingamarkaði.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×