Innlent

500 milljóna endurbætur

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Bakkaskemma.
Bakkaskemma. Fréttablaðið/Stefán
Kostnaður vegna endurbóta Faxaflóahafna á Bakkaskemmu við Grandagarð 16, sem nú hýsir Granda mathöll á neðri hæð, nam ríflega 509 milljónum króna, 67 milljónir umfram áætlun.

Þetta kemur fram í svari Faxaflóahafna við fyrirspurn Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins í borgarráði.

Í svari Gísla Gíslasonar hafnarstjóra segir að framkvæmt hafi verið frá 2011 til 2018. Heildarkostnaðaráætlun við fimm verkhluta framkvæmdanna hafi verið rúmar 442 milljónir án virðisaukaskatts. Niðurstaðan var hins vegar áðurnefndar 509 milljónir króna.

Efri hæð hússins var áður iðn­aðar­húsnæði með skrifstofuaðstöðu í öðrum endanum. Neðri hæðin hýsti áður geymslur, snyrtingar og vélaverkstæði.

Húsið var allt klætt að utan og skipt um allar hurðir og glugga í þeim hluta sem endurnýjaður var. Skipt var um allar lagnir og efri hæðinni, alls 2.534 fermetrum, breytt í skrifstofuhúsnæði sem hýsir nú starfsemi Sjávarklasans.

Á neðri hæð var skipt um allar lagnir, gólf endursteypt og komið upp loftræstikerfi. Á neðri hæðinni var gerð rýmri aðkoma með tveimur fólksflutningalyftum, sorpgeymsla, geymslur, böð og snyrtingar. 

Húsnæði Granda mathallar er alls 462 fermetrar. Fyrirtækið kostaði sjálft allar innréttingar í sal. Alls voru endurnýjaðir 3.192 fermetrar af húsnæði en í heild er Bakkaskemman 5.258,5 fermetrar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×