Innlent

Framhaldið hjá SGS skýrist eftir helgi

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Samninganefnd SGS fundaði frá klukkan 10 til 17 í gær.
Samninganefnd SGS fundaði frá klukkan 10 til 17 í gær. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR
„Gangurinn er þannig að við ætlum að hittast aftur á þriðjudaginn. Eitt af því sem menn munu ræða er hvort hann sé nægur eða hvort það sé líklegra til árangurs að vísa þessu til ríkissáttasemjara. Það verður væntanlega eitt af því sem formennirnir munu ræða við sitt fólk núna um helgina,“ segir Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins (SGS).

Samninganefnd SGS, sem samansett er af formönnum þeirra sextán félaga sem eru í samflotinu, kom saman til fundar í gær til að fara yfir stöðuna. Flosi segir að farið hafi verið yfir alla þá vinnu sem fram hafi farið í ýmsum undirhópum þar sem SGS vinni með Eflingu og að viðræðunefndin hafi gert grein fyrir viðræðunum við Samtök atvinnulífsins.

„Þetta þokast áfram og í mörgum þessara undirhópa hefur farið fram mjög gagnleg vinna. Það standa samt ennþá út af borðinu mjög stór mál. Það er til dæmis ekki mikið byrjað að ræða launaliðinn,“ segir Flosi.

Efling og Verkalýðsfélag Akraness drógu sig út úr samfloti SGS skömmu fyrir jól, vísuðu deilu sinni til ríkissáttasemjara og tóku upp samstarf við VR. Verkalýðsfélag Grindavíkur bættist svo í hópinn í síðustu viku. Þá hefur Framsýn á Húsavík sagst ætla að vísa deilunni til ríkissáttasemjara ef ekki kemst skriður á viðræðurnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×