Enski boltinn

Réðu Steve Bruce en hann fær ekki að byrja strax

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steve Bruce.
Steve Bruce. Vísir/Getty
Steve Bruce verður næsti knattspyrnustjóri enska b-deildarliðsins Sheffield Wednesday. Hann tekur hinsvegar ekki við liðinu strax.

Steve Bruce mun ekki taka við liði Sheffield Wednesday fyrr en 1. febrúar næstkomandi.

Þangað til munu þeir Steve Agnew og Stephen Clemence stjórna liðinu.

Sheffield Wednesday staðfesti þetta í miðlum sínum í dag.





Sheffield Wednesday rak Hollendinginn Jos Luhukay 21. desember síðastliðinn eftir innan við ár í starfi. Lee Bullen tók við tímabundið og eftir fjóra taplaua leiki í röð komst Wednesday liðið upp í sextán sæti deildarinnar.

Lee Bullen mun verða áfram hluti af þjálfaraliðinu á Hillsborough en hinn reynslumikli Bruce mun taka við í næsta mánuði.

Steve Bruce er orðinn 58 ára gamall og hefur mikla reynslu úr enska boltanum. Hann hefur stjórnað liðum í yfir 800 leikjum í ensku deildunum.

Hann þekkir líka mjög vel til á svæðinu enda hefur hann stýrt nágrönnunum í Sheffield United sem og liðum Huddersfield Town og Hull City sem eru ekki langt í burtu heldur í Jórvíkurskíri.

Steve Bruce var síðast hjá Aston Villa frá 2016 til 2018 en hann var rekinn í október. Bruce hóf stjóraferill sinn hjá Sheffield United tímabilið 1998-99.

Bruce kom bæði Birmingham og Hull City upp í ensku úrvalsdeildina en tókst ekki að fara með Aston Villa upp.

Steve Bruce átti farsælan feril sem leikmaður ekki síst á níu árum sínum hjá Manchester United. Hann spilaði yfir 300 leiki fyrir Manchester United og var fyrirliði Englandsmeistara United 1993, 1994 og 1996.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×