Mikilvægur sigur Burnley

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson. vísir/getty
Burnley vann lífs nauðsynlegan sigur er liðið hafði betur gegn Huddersfield 2-1 í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Huddersfield komst yfir með marki Steve Mounie á 33. mínútu en sjö mínútum síðar jafnaði Chris Wood metin.

Leikar stóðu 1-1 í hálfleik en undir lok fyrri hálfleiks fékk Christopher Schindler sitt annað gula spjald og þar með rautt. Heimamenn í Huddersfield því einum færri.

Sigurmarkið kom svo stundarfjórðungi fyrir leikslok og það var hinn ólseigi framherji Ashley Barnes sem skoraði eftir undirbúning Ashley Westwood.

Í uppbótartíma fékk svo Roby Brady beint rautt spjald í liði Burnley en það kom ekki að sök og 2-1 sigur Burnley.

Mikilvæg þrjú stig í hús hjá Burnley sem er komið upp úr fallsæti. Þeir eru í sextánda sætinu með átján stig en Jóhann Berg Guðmundsson spilaði allan leikinn í kvöld.

Það er hins vegar bullandi vesen á Huddersfield. Þeir eru á botninum með tíu stig, átta stigum frá öruggu sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira