Skiptingar Solskjær gerðu gæfumuninn í fjórða sigrinum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Solskjær brosmildur í kvöld.
Solskjær brosmildur í kvöld. Vísir/getty
Manchester United vann sinn fjórða sigur í röð undir Ole Gunnar Solskjær er liðið vann 2-0 sigur á Newcastle á útivelli í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn var afar tíðindalítill. Hættulegustu færi leiksins áttu heimamenn í Newcastle og þar var Christian Atsu hættulegastur. Þó markalaust í hálfleik.

Fátt markvert gerðist þangað til á 63. mínútu er Ole Gunnar gerði tvöfalda breytingu. Romelu Lukaku og Alexis Sanchez komu inn í stað Juan Mata og Anthony Martial.

Þá fóru hlutirnir að gerast. 38 sekúndum eftir að hafa komið inn á skoraði Lukaku. Hann fylgdi þá eftir föstu skoti Marcus Rashford úr aukaspyrnu sem Martin Dubravka réð ekkert við.

Þvílík innkoma hjá Belganum og tíu mínútum fyrir leikslok tvöfaldaði Marcus Rashford forystuna eftir undirbúning Alexis Sanchez. Lokatölur 2-0.

Solskjær er því kominn með fjóra sigra í fyrstu fjórum leikjunum sínum sem stjóri United en þetta var í fyrsta skipti sem United heldur hreinu síðan 23. nóvember.

Liðið er áfram í sjötta sætinu, nú með 38 stig. Þeir eru þremur stigum á eftir Arsenal og sex stigum á eftir Chelsea sem eru í sætunum fyrir ofan. Newcastle er í fimmtánda sætinu með átján stig.

Það voru ótrúlegar senur á Vitality-leikvanginum í kvöld.vísir/getty
Það var líf og fjör er Bournemouth og Watford mættust en lokatölur urðu 3-3 eftir rosalegan fyrri hálfleik þar sem öll sex mörk leiksins voru skoruð.

Troy Deeney kom Watford í 2-0 á fyrstu 27 mínútum leiksins en Nathan Ake minnkaði muninn á 34. mínútu. Þremur mínútum síðar jafnaði Callum Wilson metin 2-2.

Fjörið í fyrri hálfleik var ekki lokið, Ken Sema kom Watford yfir á 38. mínútu og innan við mínútu síðar var staðan aftur jöfn, 3-3, er Ryan Fraser jafnaði metin.

Lokatölur 3-3 en Bournemouth er í tólfta sæti deildarinnar með 27 stig. Watford er hins vegar í áttunda sætinu með 29 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira