Enski boltinn

Klopp: Manchester City er ennþá besta lið í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. vísir/getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, talaði lið Manchester City upp fyrir stórleik liðanna í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld.

Manchester City er í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar, sjö stigum á eftir toppliði Liverpool, en City vann yfirburðarsigur í ensku deildinni á síðustu leiktíð.

Liverpool mætir í heimsókn á Ethiad leikvanginn á morgun og getur náð tíu stiga forystu á menn Pep Guardiola með sigri.

Leikurinn er mikilvægur fyrir Liverpool-liðið en lífsnauðsynlegur fyrir Manchester City ætli liðið að verja titilinn í vor.

„Þetta er venjulegur leikur á móti Manchester City en um leið mjög erfiður leikur. Þetta er einn erfiðasti leikurinn sem þú getur spilað í nútímafótbolta,“ sagði Jürgen Klopp á blaðamannafundi í dag.

„Þeir eru mjög öflugt fótboltalið með frábæran knattspyrnustjóra. Þú veist aldrei hvað þú ert að fara út í á móti þeim,“ sagði Klopp.

„Við verðum að undirbúa okkur eins vel og við getum, við þurfum að vera hugrakkir, fullir af löngun og þurfum að spila reiðir eins og í öllum hinum leikjunum,“ sagði Klopp.

„Mótherjinn er að mínu mati ennþá besta lið í heimi,“ sagði Klopp.





Guardiola sagði fyrir leikinn að Manchester City hafi ekki á því að tapa stigum í þessum leik ef þær ætli að verða aftur enskir meistarar. Klopp er ekki sammála.

„Þið verðið að spyrja Pep af hverju hann sagði þetta. Ef við værum tíu stigum á eftir þeim eftir þennan leik þá myndi ég samt segja að við gætum náð þeim,“ sagði Klopp.

„Það er ennþá bara 2. janúar. Þetta er samt mjög, mjög, mjög mikilvægur leikur fyrir bæði lið. Þetta er einn af þessum sex stiga leikjum sem geta haft mikil áhrif. Þeir vita það og mæta örugglega hundrað prósent tilbúnir,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×