Úlfarnir slógu út Liverpool

Anton Ingi Leifsson skrifar
Úlfarnir fagna marki í kvöld.
Úlfarnir fagna marki í kvöld. Vísir/Getty
Liverpool er úr leik í enska bikarnum eftir 2-1 tap gegn öðru úrvalsdeildarliði, Wolves, en leikurinn var afar fjörugur, sér í lagi í síðari hálfleik.

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, gerði afar margar breytingar á sínu liði og það var bara Dejan Lovren sem hélt sæti sínu frá leiknum gegn Manchester City.

Liverpool varð fyrir áfalli strax á fimmtu mínútu er Dejan Lovren meiddist en hann byrjaði í miðju vörninni með miðjumanninum Fabinho. Inn kom sextán ára gutti, Ki-Jana Hoever, í sínum fyrsta leik.

Fyrsta markið kom á 38. mínútu er Raul Jimenez kom Wolves yfir eftir mistök James Milner. Jimenez slapp einn í gegn og kláraði færið afar vel framhjá Simon Mignolet.

Liverpool átti ekki eitt skot á markið í fyrri hálfleik og fyrsta skot þeirra á markið kom á 51. mínútu er Divock Origi skaut á markið og boltinn lá inni. Allt jafnt.

Adam var ekki lengi í paradís því fjórum mínútum síðar voru Úlfarnir komnir aftur yfir. Þá skoraði Ruben Neves með frábæru skoti fyrir utan teig en átta af níu mörkum hans fyrir Wolves hafa komið fyrir utan teig.

Klopp sendi Roberto Firmino og Mohamed Salah á vettvang á 70. mínútu og sex mínútum síðar var Xherdan Shaqiri lygilega nálægt því að jafna metin er aukaspyrna hans fór af höndunum á John Roddy og í stöngina.

Lokatölur 2-1 og Wolves er komið í fjórðu umferðina en dregið verður síðar í kvöld.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira